Andvari - 01.01.1994, Blaðsíða 34
32
DAVÍÐ ODDSSON
ANDVARI
VIII
Geir Hallgrímsson og samherjar hans höfðu ekki lengi fagnað varn-
arsigri sínum í Reykjavík, er þeim bárust sem öðrum íslendingum
einhver mestu og válegustu tíðindi, sem orðið hafa í sögu Sjálfstæðis-
flokksins sem og sögu þjóðarinnar. Hinn 10. júlí 1970 lét formaður
flokksins, Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, lífið í eldsvoða í for-
sætisráðherrabústaðnum á Þingvöllum ásamt konu sinni, Sigríði
Björnsdóttur, og ungum dóttursyni. Þessi fregn kom sem reiðarslag
yfir alla forystumenn Sjálfstæðisflokksins og raunar alla íslendinga.
Jóhann Hafstein, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og dóms- og iðn-
aðarráðherra, tók til bráðabirgða við stöðu forsætisráðherra. Hald-
inn var þingflokksfundur, þar sem ákveðið var að tillögu séra Gunn-
ars Gíslasonar í Glaumbæ að fela fjórum mönnum eins konar leið-
sögn flokksins eftir hið skyndilega fráfall flokksforingjans. Þeir voru
hinir þrír ráðherrar flokksins, Jóhann Hafstein, Ingólfur Jónsson og
Magnús Jónsson frá Mel, og Geir Hallgrímsson borgarstjóri. Sýnir
þetta, að Geir var árið 1970 í raun orðinn einn aðalleiðtogi Sjálfstæð-
isflokksins. Hafði Bjarni Benediktsson raunar lengi haft augastað á
honum sem eftirmanni sínum. Árið 1965, er Gunnar Thoroddsen
sagði af sér varaformannsstöðu í Sjálfstæðisflokknum og ráðherra-
starfi til þess að verða sendiherra í Kaupmannahöfn og búa sig undir
forsetaframboð 1968, hafði Bjarni viljað, að Geir yrði varaformaður.
Hafði hann rætt það við þá Geir og Jóhann Hafstein, sem ella hefði
verið talinn standa næst því. Þegar Bjarni kynnti þingmönnum þetta
sjónarmið, kom hins vegar í ljós nokkur andstaða. Töldu ýmsir þing-
menn rangt að leita út fyrir þingflokkinn um varaformannsstöðuna.
Enn fremur voru sumir gamlir vinir Jóhanns í þingflokknum, til
dæmis Jón Árnason, Jónas G. Rafnar og Sigurður Ágústsson, þeirrar
skoðunar, að gengið væri freklega fram hjá honum, ef Geir Hall-
grímsson yrði varaformaður. Tími Geirs væri ekki kominn. Þegar
Bjarni varð var við þessa andstöðu og gerði sér ljóst, að Jóhann gæti
hugsað sér að verða varaformaður, ákvað hann að styðja Jóhann í
stöðuna, og var hann kjörinn varaformaður á landsfundi 1965.
En nú jukust viðsjár í Sjálfstæðisflokknum. Hinn vinsæli og áhrifa-
mikli fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík og varaformaður flokks-
ins, Gunnar Thoroddsen, hafði tapað fyrir Kristjáni Eldjárn í for-
setakjöri 1968 og þar vafalaust goldið erfiðleika þeirra, sem viðreisn-