Andvari - 01.01.1994, Blaðsíða 126
124
GUNNAR KARLSSON
ANDVARI
leyti á óprentuðum frumheimildum. Við höfum hér í höndum þrjú fræðileg
stórvirki.
Þessar bækur segja okkur margt sem ekki var aðgengilegt á prenti áður.
Aðalgeir fer einkum rækilega í gegnum heimildir um þjóðfundinn sjálfan,
undirbúning hans, störf og eftirmál, og dregur margt fram í dagsljósið sem
ekki var kunnugt áður. Mest nýjung finnst mér að þeirri hugmynd sem rit
hans gefur um róttæka en átakanlega ráðvillta og mótsagnakennda stjórn-
málaólgu meðal almennings á íslandi á árunum milli stjórnarbyltingarinnar
í Danmörku 1848 og þjóðfundarins á íslandi 1851. Þar ægir saman hug-
myndum um að setja embættismenn af, jafnvel í hópum, og að færast und-
an kostnaðinum við að halda Alþingi, einu stofnun landsmanna sem virtist
geta ögrað embættismannaveldinu. Þjóðfundurinn fær talsvert annan svip
en við höfum átt að venjast þegar við lesum bréf þjóðfundarfulltrúans Jóns
Jónssonar á Munkaþverá (310):
Allir ganga hér verklausir og hugsunarlausir hver um annan þveran. því að ekkert
rekur né gengur. . . . veit eg ekki hvað lengi þingið kann að vara, líklegast eina tvo
mánuði eða lengur.
Þó að í rauninni ami ekkert að mér og eg lifi hér í vellystingum hvern dag praktug-
lega, þá er þetta einhver leiðinlegasti kafli ævi minnar, því að ekkert er gert og um
ekkert hugsað.
Sveinn Skorri gefur afar breiða og umfangsmikla yfirsýn yfir líf og starf
manns með fjölþætt viðfangsefni og áhugamál á óvenjulangri starfsævi. Hér
er ekki aðeins rakin ævi manns, heldur jafnframt komið inn á stjórnmála-
sögu, verslunarsögu, hugmyndasögu, bókmennta- og bókmenningarsögu.
Jafnvel birtist hér brot af tónlistarsögu þjóðarinnar, því að Benedikt og fé-
lagar hans voru meðal fyrstu alþýðumanna á íslandi sem reyndu að tileinka
sér hljóðfæri og nótnaskrift í tónlistariðkun sinni. Benedikt var sérkennileg
blanda af heimsborgara og heimalningi. Hann skrifar um stjórnmál og
verslunarmál, lífið og tilveruna af víðsýni og skarpskyggni, eins og hann
sjái vítt um heima alla. Um aldamótin datt félögum hans, og líklega honum
sjálfum, í hug að gera hann að umboðsmanni kaupfélaganna á Englandi
(65-66, 381-82). Arið 1905 gat hann á hinn bóginn ekki hugsað sér að gerast
ritstjóri Heimastjórnarmanna á Akureyri, „enda veit að ég þrífst alls ekki
andlega né líkamlega utan við Þingeyjarsýslu.“ (77)
Saga Kvenréttindafélagsins hefur ekki verið sögð á prenti áður, nema
lauslega á 40 ára afmæli þess 1947.1 Því er flest í bók Sigríðar ný tíðindi fyrir
flesta lesendur. Almenn þjóðarsaga okkar skilur eftir þá hugmynd að nán-
ast ekkert hafi gerst í réttindamálum kvenna frá því að formlegum mennt-
unar- og stjórnmálaréttindum var náð á öðrum áratug aldarinnar, uns nýja