Andvari - 01.01.1994, Blaðsíða 21
ANDVARI
GEIR HALLGRÍMSSON
19
um þjóðskipulagsins að markmiðum hinnar einu áætlunar. Leiddi
Hayek jafnframt rök að því, að nasismi eða nasjónal-sósíalismi og
kommúnismi væru náskyldar stefnur.
Geir Hallgrímsson las útdráttinn úr bók Hayeks í Reader’s Digest
vorið 1945 og hreifst mjög af boðskapnum. Hann var um þessar
mundir ritstjóri blaðsíðu, sem Samband ungra sjálfstæðismanna
hafði til ráðstöfunar í Morgunblaðinu, og fékk Ólaf Björnsson, síðar
prófessor, til þess að snara útdrættinum á íslensku. Birtist hann í ell-
efu hlutum á blaðsíðu Sambands ungra sjálfstæðismanna í Morg-
unblaðinu tímabilið frá 21. júlí til 29. september 1945. Boðskapur
Hayeks vakti mikla athygli hérlendis. Sjálfstæðismenn töldu hann
styrkja röksemdir sínar gegn sósíalisma, en ýmsir félagar í Alþýðu-
flokknum og Sósíalistaflokknum brugðust ókvæða við. Þá var sam-
steypustjórn Sjálfstæðisflokks, Alþýðuflokks og Sósíalistaflokks und-
ir forsæti Ólafs Thors við völd, hin svokallaða nýsköpunarstjórn.
Þjóðviljinn skrifaði í leiðara 26. júlí 1945: „Það má vel vera, að Morg-
unblaðið hafi ekki áttað sig á þessari lymskulegu árás á stefnu ríkis-
stjórnarinnar, þegar henni var lætt inn á síður þess. En þá færi vel á,
að blaðið gerði það sem fyrst.“ Jafnframt því sem útdrátturinn úr
bók Hayeks hélt áfram að birtast, skýrði Ólafur Björnsson betur
boðskap hans í nokkrum greinum í blaðinu. En 11. ágúst 1945 skrif-
aði ungur sjálfstæðismaður grein í Morgunblaðið undir heitinu:
„Kommúnistar kveinka sér“ - og endurtók þar það, sem Hayek
hafði haldið fram, að sósíalismi og lýðræði væru ósættanlegar and-
stæður. Þessi ungi sjálfstæðismaður kallaði sig Grímni, og þar var
hinn 19 ára Geir Hallgrímsson kominn. Næsta mánuðinn var háð
hörð ritdeila á síðum Morgunblaðsins og Þjóðviljans um markaðs-
kerfi og áætlunarbúskap, lýðræði, frelsi og sósíalisma, þar sem þeir
Geir Hallgrímsson og Ólafur Björnsson ásamt ritstjórum Morgun-
blaðsins áttu í höggi við Jónas H. Haralz, þá ungan hagfræðing í röð-
um sósíalista, og ritstjóra Þjóðviljans. Voru skrifaðar ófáar forystu-
greinar í bæði blöðin um þessi mál.
Þótt Geir hafi ekki verið nema tæplega tvítugur, þegar hér var
komið, var stjórnmálaleg sannfæring hans þegar orðin æði fastmót-
uð. Frelsinu mátti ekki fórna á altari skipulagshyggjunnar, meðul
sósíalismans voru sýnu verri en sjúkdómarnir, sem þeim var ætlað að
leysa. Athafnafrelsinu og opnum frjálsum markaði gátu fylgt kvillar,
en á þeim væri hægt að taka og yrði að taka á í opnu hagkerfi. Sósíal-