Andvari - 01.01.1994, Blaðsíða 155
ANDVARI
UNG SKÁLD í ALDARBYRJUN
153
„kímnigáfa verið nær óþekkt fyrirbrigði í íslenskum bókmenntum.“ Um þá
gáfu eru þó mörg dæmi, frá Þrymskviðu og Njálu, til Jónasar, Jóns Thor-
oddsens og Gröndals. En fyndni Þórbergs er fersk, - hvernig skar hann sig
frá eldri fyndnum höfundum? Lítt er reynt að svara því, enda er þá kannski
farið að gera meiri kröfur til þessarar litlu bókar en sanngjarnt er.
Þessi bók, Frumleg hreinskilni, er þannig fremur til að æsa upp sult í
Þórbergslesendum en seðja hungur þeirra. Og það er nokkurs vert, vissu-
lega er fengur að bókinni, það sem hún nær. Sumt er hér skráð eftir munn-
legum heimildum, til dæmis skemmtileg frásögn Kristjáns Albertssonar í
viðbæti. Mætti bók Helga M. Sigurðssonar verða til að ýta undir frekari
kannanir á þessum sérstæða höfundi. Af nógu er að taka.
II
Undarlegt er líf mitt! Bréf Jóhanns Jónssonar skálds til sr. Friðriks A. Frið-
rikssonar heitir bók sem Vaka-Helgafell gaf út 1992. - Það mun hafa þótt
miklum tíðindum sæta þegar þessi bréfastafli fannst á háalofti á Húsavík.
Jóhann er goðsögn í íslenskri ljóðlistarsögu aldarinnar, aðallega fyrir ljóðið
Söknuð, en minningu skáldsins hefur Halldór Laxness einkum haldið á
lofti. Svo vill raunar til að árið 1991 birtu tveir bókmenntafræðingar ítarleg-
ar greinar um Jóhann í Skírni, Eysteinn Þorvaldsson og Ingi Bogi Bogason,
og vitnuðu þar í allmargar áður ókunnar heimildir um skáldið, þar á meðal
töluvert af bréfum. Bréfafundurinn á Húsavík hefði því mátt verða metn-
aðarfullu forlagi tilefni til að ráða annan þessara fræðimanna til að semja
ítarlega sögu Jóhanns, byggða á heimildarannsóknum. En Vaka-Helgafell
valdi þá auðveldu leið að gefa bréfin til séra Friðriks út í hasti, með for-
mála og stuttum skýringum sem Ingi Bogi Bogason hefur tekið saman.
Bókin er raunar snoturt kver ásýndum, prýtt allmörgum ljósmyndum og
vel úr garði gert. Hins vegar hljóta bréfin ein sér að gefa takmarkaðar upp-
lýsingar og þarf að setja þau í samhengi, jafnt í ævi skáldsins sem almennri
bókmennta- og menningarsögu tímabilsins.
Bréf Jóhanns í bókinni eru skrifuð á árunum 1912-25 og spegla æskuvin-
áttu tveggja manna. Þeir Jóhann og Friðrik uxu báðir úr grasi vestur í
Ólafsvík og ræktu vináttu sína með bréfaskriftum eftir að leiðir skildi og
hvor gekk sína götu í námi og starfi. Ingi Bogi gerir stutta grein fyrir ferli
Jóhanns í formála sem hann kallar „Leitin endalausa“, en Sigurjón Jóhann-
esson skrifar glögga og viðfelldna grein um viðtakanda bréfanna, séra Frið-
rik A. Friðriksson, sem var gáfaður húmanisti og listrænn maður, lengst
prestur á Húsavík og lést árið 1981.
Jóhann Jónsson er eitt þeirra skammlífu skálda sem verða eins konar