Andvari - 01.01.1995, Síða 14
12
JÓN VIÐAR JÓNSSON
ANDVARI
fangsefnið og rétt er að lesandinn viti af, er persónuleg nálægð mín
við það. Fullkomin hlutlægni er auðvitað ekki til nema hjá þeim, sem
láta sér nægja að skrásetja beinharðar staðreyndir, og um slíkt verð-
ur hér ekki að ræða nema að hluta. Atvikin höguðu því svo, að ég
gegndi hinni gömlu stöðu Þorsteins um níu ára skeið; það voru
reyndar síðustu níu árin sem hann lifði. Á þeim tíma kynntist ég
honum allvel; sótti hann á stundum heim á Laufásveginn og sat
dagstund með honum og hans ágætu konu, Dórótheu Breiðfjörð
Stephensen, frænku minni, sem kunnugir nefna aldrei annað en
Theu; stöku sinnum kom hann niður á Útvarp til mín og bar þá ým-
islegt á góma, þegar vel stóð á. Eftir þessum kynnum bjó ég mér til
mynd af manninum, en hún er mín og vafalaust talsvert önnur en
þeirra, sem þekktu hann og störfuðu með honum í blóma lífsins. Ég
komst að því sama og aðrir höfðu gert áður, að hann átti sér bæði
blíðar hliðar og hrjúfar og að skapið gat verið mikið, ef því var að
skipta. En ég sá líka vel, hversu mikilli ögun hann hafði lært að beita
sig; t. d. var hann með afbrigðum gætinn í umtali um menn og mál-
efni. Hann var maður andstæðna og án þeirra hefði hann ekki orðið
sá mikli listamaður sem hann varð, a. m. k. hefði hann ekki orðið
líkur því sem hann varð.
Þorsteinn Ö., eins og hann var oftast kallaður af samtíðarmönnum,
var einn hinna stóru frumherja, sem á fyrri hluta þessarar aldar
koma ásamt félögum sínum og samstarfsmönnum að nánast ónumdu
landi í þeirri listgrein sem gyðjurnar höfðu kosið þeim. Sem stjórn-
andi leiklistardeildar Útvarps hátt í þrjátíu ár átti hann drjúgan þátt
í að móta smekk þjóðarinnar fyrir leikbókmenntum; alltént réð hann
ekki litlu um hverju hún átti kost á að kynnast. Hann var gagn-
menntaður og kröfuharður smekkmaður, en ekki ýkja uppnæmur
fyrir ýmiss konar nýjungaviðleitni, sem átti sér stað í evrópskri leik-
ritun um hans daga; t. d. er áberandi, hversu lítið hann sinnti verkum
absúrdistanna svokölluðu sem mest bar á á 6. og 7. áratugnum. Hins
vegar lét hann útvarpa góðu úrvali af verkum breskra leikskálda eins
og Bernard Shaws, J. B. Priestleys og Somerset Maughams. Ibsen og
O’Neill voru einnig nokkuð ofarlega á blaði; Undarlegt millispil
(Strange Interlude) hins síðarnefnda, þar sem persónurnar tjá hugs-
anir sínar í beinni ræðu milli þess sem þær tala hver til annarrar, var
eitt fárra tilraunaverka aldarinnar, sem náði eyrum hlustenda í mjög
eftirminnilegum flutningi. En Strindberg heyrðist varla nokkurn tím-