Andvari - 01.01.1995, Qupperneq 31
ANDVARI
PORSTEINN Ö. STEPHENSEN
29
lega er misboðið hugmyndum sýningargesta um þennan virðulega
kirkjuhöfðingja - en þrátt fyrir þessa kölkun alla, er hann hjólliðugur
við að berja á dóttur sinni.“25 Þessi „óskapa hávaði“ stórlýti leikinn,
„einkum með tilliti til þess, að á köflum notar leikarinn allt aðra
tækni til að sýna sömu eða svipuð geðbrigði biskupsins og ferst þá
ágætlega.“
Nú getur það auðvitað verið álitamál, hversu mikið sé að marka
leikdóma, ekki síst ef þeir eru nafnlausir, eins og í þessu tilviki. Ég
hneigist þó til að halda, að þessar aðfinnslur hafi ekki verið með öllu
út í bláinn, enda hef ég orðið þess var, að fólk, sem man sýninguna,
leggur á hana nokkuð misjafnan dóm. Á það verður einnig að líta,
að þetta var í fyrsta sinn sem Þorsteinn glímdi við verulega kröfuhart
skapgerðarhlutverk á sviði og því í sjálfu sér ekkert ótrúlegt, þó að
hann hafi í fyrstu atrennu ekki verið búinn að fága persónusköpun-
ina og finna gott jafnvægi milli ólíkra þátta hennar. Nú vill svo til, að
til er útvarpsupptaka á leiknum frá 1954 og verður sannarlega ekki
um hana sagt, að kraftur leikarans beri fágunina ofurliði; þvert á
móti er þar bæði myndugleika biskups, tilfinningalegum sársauka og
nánast sjúklegri ást hans á dótturinni feikilega vel til skila haldið. En
þá er auðvitað liðinn áratugur frá frumsýningunni og það einmitt sá
tími þegar list Þorsteins var í hvað mestri framför.
1. febrúar 1947 verða þær breytingar á högum Þorsteins, að honum
er veitt staða leiklistarstjóra Ríkisútvarpsins. Var það eitt af síðustu
embættisverkum Brynjólfs Bjarnasonar sem menntamálaráðherra að
ganga frá ráðningu hans til starfsins, sem hafði ekki verið til áður.
Þar sem staðan var aldrei auglýst til umsóknar - sem mönnum þótti
kannski ekki tiltökumál í þá daga - má segja, að hún hafi verið búin
til handa Þorsteini, en þeir Brynjólfur voru auðvitað pólitískir sam-
herjar og stöðuveitingin því hápólitísk, samkvæmt öllum venjulegum
skilningi. í þessu tilviki verður Brynjólfur þó vart sakaður um að
hafa látið pólitíska velvild bera faglegt mat ofurliði, enda vandséð
hver hefði á þessum tíma átt að vera hæfari til að gegna stöðu leik-
listarstjóra; það hefði þá helst verið Lárus Pálsson, sem reyndar
hafði nokkru fyrr tekið að sér tímabundna umsjón með útvarpsleik-
ritunum. Hvað sem því líður var löngu orðið tímabært að koma stöð-
unni á fót. RíLisútvarpið hafði snemma tekið að flytja leikrit, brot úr
leikritum og leikþætti, við ótvíræða hlustendahylli. Hafði Vilhjálmur
Þ. Gíslason, sem var lengi framan af Útvarpsráði til ráðuneytis um