Andvari - 01.01.1995, Síða 34
32
JÓN VIÐAR JÓNSSON
ANDVARI
á, að þeir verðskulduðu þá starfsaðstöðu sem stofnun fullgilds og vel
búins atvinnuleikhúss fól í sér. Sóknin að þessu markmiði, sem hófst
í raun og veru þegar með stofnun L. R., hafði verið sú hvatning sem
listamenn sviðsins þurftu á að halda; nú varð brýningin að koma
annars staðar frá. Eftir þó nokkur innanfélagsátök í ágúst 1950 varð
niðurstaðan því sú að halda áfram leikhúsrekstri í gamla samkomu-
húsinu við Tjörnina á svipuðum félagsgrundvelli og tíðkast hafði um
meir en hálfrar aldar skeið.
Þetta hefði ekki getað orðið, hefði stór hópur yngri leikara og
áhugamanna ekki um leið gengið til liðs við Leikfélagið. Þegar hér
var komið sögu voru allmargir ungir leikarar komnir heim frá námi
erlendis, einkum í Bretlandi, og munu nokkrir þeirra jafnvel hafa
verið með ráðagerðir um að stofna lítið atvinnuleikhús á eigin veg-
um í samkeppni við Þjóðleikhúsið. Einn í þeim hópi var Einar Páls-
son, sem staðfestir, að Þorsteinn hafi að fyrra bragði leitað til sín urn
að taka við formennsku í L. R., en sjálfur vildi Þorsteinn ekki til
lengdar gegna slíkri stöðu, sem var sjálfsagt hyggilegt. Var Einar
kjörinn formaður haustið 1950 og gegndi því embætti næstu þrjú ár,
jafnframt því sem hann leikstýrði mörgum sýningum, einkum af létt-
ara tagi. Þorsteinn lét sér hins vegar nægja setu í verkefnavalsnefnd
svokallaðri, sem starfaði við hlið stjórnar og átti að gera tillögur um
leikritaval. Auk hans ákvað Brynjólfur Jóhannesson að starfa áfram
á sínu gamla leiksviði og síðast en ekki síst fékk L. R. til liðs við sig
Gunnar Hansen, sem fyrr er nefndur til sögu og var af tilviljun stadd-
ur á Islandi þetta sumar við kvikmyndagerð. Það var Gunnar, sem
setti á svið þær sýningar leikhússins sem mesta athygli vöktu næstu
ár og staðfestu, að Þjóðleikhúsið hefði þegar frá upphafi eignast
verðugan keppinaut.
A engan er hallað þó að fullyrt sé, að þegar á fyrsta leikári hins
endurreista Leikfélags hafi Þorsteinn birst sem aðalkjölfesta þess í
leikarahópi. Veturinn 1950-51 er hann þannig í burðarhlutverki í
þremur fyrstu sýningunum, bandaríska gamanleiknum Elsku Rut eft-
ir Norman Krasna, Marmara og norska leikritinu Önnu Pétursdóttur
eftir Hans Wiers-Jensen. Síðan má nánast segja, að hver leiksigurinn
reki annan fram yfir miðjan áratuginn, þegar málin taka óvænta
stefnu og leiðir skilur með honum og félaginu, að kalla má fyrir fullt
og allt. Þessi sóknartími í starfsævi Þorsteins er að því er ég best
fæ séð einsdæmi í sögu íslenskra leikara og því vel þess virði að