Andvari - 01.01.1995, Page 95
JÓNAS HALLGRÍMSSON
Ferðir að Kröflu- og
Fremrinámum
Haukur Hannesson þýddi
Inngangur
Ofá yrkisefni Jónasar Hallgrímssonar eiga rætur í ferðum hans um ísland. Það ligg-
ur beint við, því að hann ferðaðist í vísindaskyni um alla fjórðunga landsins og var
allra Islendinga kunnugastur byggðum og háttum í landinu. Þekktustu ferðakvæði
Jónasar eru án vafa Fjallið Skjaldbreiður frá árinu 1841 og erindin stórfenglegu
undir heitinu Annes og eyjar, sem hann var með í smíðum undir ævilok. Það er
mikil eftirsjá í því, að honum skyldi ekki endast aldur til að auka þar við, ekki
ósennilegt að það hafi verið ætlun hans.
Á síðasta aldursári Jónasar, 1845, birtust í Fjölni tvö smákvæði sem fylla flokk
ferðavísna hans, erindin Víti og Fremrinámar. Tilurð þeirra er að rekja til sumars-
ins 1839 þegar Jónas ferðaðist um norðanlands. Þau eru „fornkveðin" líkt og
Ferða-rolla Eggerts Ólafssonar. Þar stiklar Eggert milli staða á landinu á svipaðan
hátt og Jónas gerði „vindléttum fótum" í Annesjum og eyjum og yrkir meðal ann-
ars erindi um Víti og Kröflu. Þær vísur þekkti Jónas vel, eins og annað í kvæðabók
Eggerts. í bréfi til Finns Magnússonar, dagsettu í Reykjahlíð 22. júlí 1839, vísar
hann til Vítis-erindis Eggerts: „á föstudaginn var fór ég upp á Kröflu og niður í
skvompurnar vestur undan henni sem allar heita einu nafni - „Víti“; datt mér þá í
hug Eggert Ólafsson og þeir félagar þegar þeir voru að kraka hatt Bjarna Pálsson-
ar upp úr einum versta og voðalegasta pyttinum."
Ofangreind smákvæði Jónasar eru ekki til í eiginhandarriti og af þeim sökum
verður ekki ráðið nú hvenær þau urðu til. Þau kunna að vera ort dagana sem hann
var í Mývatnssveit eða ef til vill ekki fyrr en síðasta árið hans, úr því að hann birti
þau ekki í Fjölni fyrr en 1845. Hvað sem því líður, má ímynda sér - og ekki síst ef
þau eru ort seint - að þau séu eins konar upptaktur að flokkinum Annes og eyjar,
Jónas hafi verið að þreifa fyrir sér með bragarhátt fyrir þann flokk, hafi á frumstigi
verið að gæla við þá hugmynd að fylgja dæmi Eggerts Ólafssonar og yrkja með
svipuðu lagi og hann, en síðan komið sér niður á þann brag sem hann beitti og
kenndi við Heinrich Heine. -