Andvari - 01.01.1995, Qupperneq 151
ANDVARI
RÁN EÐA RÆKTUN
149
3
Haustið 1906 gekk Guðmundur að eiga Málfríði Soffíu Jónsdóttur frá
Varmá í Mosfellssveit, Árnasonar. Hún var fædd 1878 og lifði mann sinn,
andaðist 1962. Þau Guðmundur eignuðust tvö börn, Klöru (f. 1907) og Dav-
íð Atla (f. 1920), en hann misstu þau 18 ára gamlan. Klara, sem jafnan átti
heima í Reykjavík, andaðist 1981.
Auk kennslunnar, sem var aðalstarf Guðmundar, sinnti hann margvísleg-
um áhugamálum sínum, ýmist einn eða í félagsskap við samherja. Var hann
um skeið einn af helstu leiðtogum ungmennafélagshreyfingarinnar, og á
sambandsþingi 1914 kosinn í stjórn og jafnframt valinn sambandsstjóri. í
því fólst að hann var ekki einungis stjórnarformaður, heldur jafnframt
framkvæmdastjóri. Gegndi hann sambandsstjórastarfinu í þrjú ár, og lagði
á sig ómælda sjálfboðavinnu í því sambandi. Þetta voru erfiðleikatímar,
heimsstyrjöld geisaði og óvissa ríkti um framtíðina. Dofnaði þá nokkuð yfir
ungmennafélagsskapnum í höfuðstaðnum, en Guðmundur kostaði kapps
um að halda í horfinu, enda störfuðu félög af þrótti víða um land. Árið 1915
komu fram raddir um það á Alþingi að skerða mætti eða afnema styrk
þann sem ungmennafélagshreyfingin hafði notið úr ríkissjóði. Það varð til
þess að Guðmundur tók saman bækling um störf og stefnu ungmennafélag-
anna. Kom hann út sama ár og var eins og Skógræktarritið gefinn í kaup-
bæti með Skinfaxa, tímariti sambandsins.
Nánasti samstarfsmaður Guðmundar þessi ár var Jónas Jónsson frá
Hriflu, ritstjóri Skinfaxa. Tók hann og við af Guðmundi 1917 sem formaður
ungmennafélagshreyfingarinnar. Átti vinátta þeirra Guðmundar og Jónas-
ar eftir að bera ávöxt síðar, þegar Þingvellir voru friðaðir og gerðir að
þjóðgarði.
Eftir að Guðmundur lét af formennsku ungmennafélaganna var hann
áfram í sambandsstjórn, átti þar sæti til 1923.
Á öðrum vettvangi félagsmála lét Guðmundur til sín taka. Hann hafði
snemma gerst róttækur í stjórnmálaskoðunum og mun hafa verið meðal
stofnenda Alþýðuflokks og Alþýðusambands 1916. Starfaði hann þar all-
mikið fyrstu árin, og ævilangt aðhylltist hann stefnu jafnaðarmanna.
Eins og áður er getið tók enginn betur Skógræktarriti Guðmundar og
boðskap þess en Valtýr Guðmundsson háskólakennari í Kaupmannahöfn
og ritstjóri Eimreiðarinnar. Það hefur að líkindum orðið til þess að árið
1913 leitaði Guðmundur til Valtýs og sendi honum ritsmíð um það áhuga-
mál sitt að hinum forna þingstað þjóðarinnar, Þingvelli, yrði fullur sómi
sýndur. Valtýr tók Guðmundi mætavel, og í næsta hefti Eimreiðarínnar
birtist grein Guðmundar: Þingvellir við Öxará, þar sem lagt er til að alþing-