Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags - 01.01.1949, Blaðsíða 47
anna, að í Evrópu, og þá sérstaklega Vestur-Evrópu,
yrði neyð og ringulreið. Heimsviðskipti kæmust þá
ekki í heilbrigt horf, og heimsfriðnum kynni að
stafa hætta af, en síðast en ekki sízt kynni það að
verða vatn á myllu þeirra stjórnmálaafla, sem væru
byltingar- og einræðissinnuð og vildu sem nánasta
samvinnu við það stórveldið, sem Bandaríkin skoða
sem höfuðkeppinaut sinn i heimsstjórnmálunum,
Sovétríkin, svo að neyð og ringulreið i Evrópu yrði
óbeint til þess að efla þau. Þetta verður að hafa hug-
fast í sambandi við hina miklu aðstoð Bandaríkjanna
við Evrópu. En hún hefur jafnframt borið vott um
stórhug og ábyrgðartilfinningu og verið Evrópuþjóð-
unum mjög mikils virði.
Á miðju síðastliðnu ári var orðið augljóst, að
dollaralán það, sem Bretar höfðu tekið skömmu eftir
stríðslokin, þryti miklu fyrr en ráð hafði verið fyrir
gert, og að þær vörusendingar, sem Evrópa hafði
fengið frá Vesturheimi eftir stríðið, hefðu ekki orðið
að eins miklu liði og unnt hefði verið, ef einhvers
konar heildarskipulag hefði verið á vörusending-
unum. Væri því fyllsta ástæða til að endurskoða öll
þessi skipti Evrópu og Vesturheims og koma þeim í
fast horf, en reyna jafnframt að haga þeim og við-
reisn Evrópulandanna þannig, að þau gætu sem fyrst
orðið óháð slíkri aðstoð annars staðar að. Þessi atriði
lágu til grundvallar tilboði því, sem Marshall flutti í
ræðu sinni 5. júni 1947, og áætlunum þeim, sem
Parísarfundurinn samdi síðar á þvi sumri.
í Bandarikjunum voru skýrslur Parísarfundarins
athugaðar rækilega, og fjölluðu ýmsar sérfræðinga-
nefndir um þær. Allar voru þær á einu máli um,
að Bandaríkin ættu að halda áfram að stuðla að
viðreisn Evrópu og að þau hefðu góð efni á að láta
aðstoðina í té, enda næmi hún, þótt um miklar fjár-
hæðir væri að ræða, ekki nema 1.75% af árlegum
þjóðartekjum Bandaríkjanna að meðaltali, meðan á
(45)