Tímarit Máls og menningar - 01.05.1949, Blaðsíða 70
BJÖRN TH. BJÖRNSSON listjrœSingur:
Opinbert listasafn á fslandi
Aldrei, svo mér sé kunnugt, hefur orðið slík gífurleg áhugavakning
á sviði myndlista, eins og átt hefur sér stað á íslandi síðustu áratug-
ina. Fyrir réttum mannsaldri síðan lágu mál þessi ennþá í svo djúpri
fásinnu, að sá þótti næst því vankaður á sinni, sem varð uppvís að
því að sýsla við pensil og örk. Ef leitað er lengra aftur, má sjá margan
snilling í urð hrakinn fyrir sakir fátæktar manna og skammsýni, —
eða hvar mundu t. d. þeir Sæmundur Hólm og Sölvi Helgason hafa
staðið í dag?
Þótt segja megi, að íslenzk nútímalist hafi þegar verið reifað barn
á túninu fyrir ofan Ásólfsstaði sumarið 1909, leið samt langur tími,
áður en hún öðlaðist fullan þegnrétt með öðrum menningargreinum
þjóðfélagsins. Málarar voru enn skoðaðir utangarðsmenn, vafasamir
sérvitringar, og verkum þeirra enn skipaður sess með rímstagli sveitar-
ómaga.
í dag las ég svo í blöðunum, að aðsóknin að sýningu eins bezta
listamanns okkar hafi náð fimm þúsundum,* — þeim hundraðshluta
íbúanna, sem væri óhugsanlegur í nokkurri annarri borg álfunnar,
enda þótt um sýningar hinna vinsælustu manna væri að ræða. Þetta
er því markverðara sem ég veit, að fólk sækir sýningu þessa ekki fyrir
forvitni eina, heldur til þess að njóta hennar af alhug.
Þetta er ekkert einsdæmi í Reykjavík. Á góðu kveldi eða helgum
degi, þegar tveir fánar blakta vestan við Alþingishúsið og dyrnar á
Listamannaskálanum standa upp á gátt, finnst manni oft sem hjarta
Reykjavíkur slái heitast á þessum stað. Hér hefur ný íslenzk menning
verið í deiglunni um tug ára. Hún hefur mótazt frá degi til dags, —
andstæður hafa skapazt, ungir menn hrósað sigri og aðrir litið skapa-
dægur sitt.
* Höf á við sýningu Kjarvals í marz s.l., en liana sóttu reyndar yfir sjö þús-
undir. — Aths. ritstj.