Tímarit Máls og menningar - 01.12.1964, Blaðsíða 49
M eleyjarþáttur
og styrk. Nú erum vér að vísu mikið áfram um að færa út ríki vort; en þó
varðar oss meira að vér verðum þá ugglausari ef vér brjótum yður undir oss.
En oss ríður mikið á að þér takið oss eigi fram, því að þér eruð lílilmótlegri
en aðrir eylendingar, en vér eigum mestan skipastól í Grikklandshafi.
Meleyingar: En lízt yður þá ekki hinn kosturinn jafnóhættur? Nú með því
að þér bannið oss að minnast á rétllætið, en talið oss upp til að vilja yðar
gagn, þá komumst vér ekki hjá því að gefa yður vísbendingu um vort gagn
og telja yður á vort mál, ef eitt gengur yfir báða. En þeir sem nú veita hvor-
ugum í óíriðnum, þá munuð þér gera yður að fjandmönnum þegar þeir
spyrja hversu þér breytið við oss, enda er þá einsætt að þér munuð breyta
eins við þá. Og á þá leið eflið þér fjandmenn yðar, þá sem nú eru, en egnið
aðra upp á yður ófúsa og nauðuga.
Aþenumenn: Oss eru ekki meginlandsrikin háskasamleg, því þau eru óhult
í frjálsræði sínu og munu enn um sinn skjóta á frest viðbúnaði til varnar
gegn oss, heldur eyríkin, hæði þau sem frjáls eru eins og þér og hin sem eiga
oss heiftir að gjalda sakir þeirrar áþjánar sem leiðir af yfirráðum vorum;
en þau eru bæði óforsjál og óskynsöm og einsætt að þau mundu koma bæði
sjálfum sér og oss í hættu.
Meleyingar: En úr því að þér hættið svo miklu til að vernda ríki yðar,
en þegnar yðar til að losast við það, þá væri oss það bæði svívirðing og
bleyðimennska sem erum enn frjálsir menn, ef vér verðum oss ekki öllum til
að komast undan ánauð yðar.
Aþenumenn: Ekki ef þér farið skynsamlega að ráði yðar; því þér deilið
nú ekki kappi við jafningja yðar þar sem fræknleikurinn ræður leikslokum,
en sá hefur skömm sein vægir, heldur er heill yðar í veði, að þér etjið ekki
við ofurefli yðar.
Meleyingar: Vér höfum þó reynt að sigursæla fer einatt eftir öðru fremur
en liðstyrk. Og meðan vér höfumst nokkuð að, þá er ekki fyrir von komið að
vér stöndum á uppréttum fótum; en þá er úti um oss er vér vægjum fyrir
yður.
Aþenumenn: Von er að vísu bagabót, og hún ríður engum að fullu sem á
annars yfrinn kost, þó hún sé raunar ávallt skaðsamleg. En sá sem hefur
keypt vonina við aleigu sinni — og hún er sjaldan lítilþæg — þá mun hann
á mæðutíð reyna hana hvernig hún er gerð; en hinum verður hún ekki að
lygi sem þekkir hana út í æsar og geldur varhuga við henni. Þér eruð liðlitlir
menn og eigið allt yðar undir hamingjunni; látið því eigi ginna yður né gerið
eftir dæmi þeirra sem sökkva sér niður í spásagnir og guðmæli og aðra
351