Tímarit Máls og menningar - 01.12.1965, Page 87
Saga um sökkullista og fleira
Já, og karlarnir voru duglegir við smíðarnar, greip smiðurinn fram í, sem
heyrt hafði spurningu Nonna.
Og það held ég, sagði Páll, þeir settu ekki tvær eða þrjár hrærur fyrir sig,
heldur gengu heint til verks.
Mennirnir hömuðust við að hræra eða leggja borð, negla þau saman með
klampa og setja stífur.
Og það held ég, sögðu þeir báðir og hlógu kátleitir í vinnuskapi.
Nonni horfði á þá til skiptis fýldur á svip og hretti upp á nefið. Hann
skildi ekki ánægjuna, sem gripið hafði mennina, en eitthvað dignaði innan í
honum við háðsglósurnar eða hvatningarorðin, sem þeir sendu honum.
Nei, fjandinn eigi það, sagði Páll og reis upp á skófluna, ég vil hafa sökkul-
lista. Hús með sökkullista eru miklu svipmeiri.
Og faktískt betri vegna þess að regnið rennur af klæðningunni niður í jörð-
ina í stað þess að seytla inn í steypuna í grunninum og mola hana smátt og
smátt eins og alltaf verður á sökkullistalausum húsum, sagði smiðurinn.
Dropinn holar steininn, er ekki svo, Nonni.
Jú, svaraði hann treglega og hvarflaði augunum til smiðsins.
Hann er ekki svo galinn, strákurinn þinn, Páll.
Nonniii ... nei, ekki aldeilis.
Hann er glúrinn og veit ýmislegt. Ég er að hugsa um að smeygja honum
með í steypuflokkinn þegar Kalli hefur mannrænu í sér að sletta í mótin.
Nonni veit áreiðanlega margt sem við vitum ekki.
Já, hvað eru þá mörg sandkorn á tunglinu, spurði Nonni.
Sko, sagði smiðurinn. Ekki hef ég hugmynd um það. Milljón-billjón-nilljón-
dilljón.
Nei —, segðu heldur silljón-villjón-hundraðþúsund-krilljón, sagði Páll,
sem mundi liggja nær.
Bandvitlaust hjá báðum, hrópaði Nonni. Þau eru óteljandi.
Smiðurinn gnísti tönnum, gretti sig ógurlega og lézt ætla að reka saum í
tána á Nonna. Allir ráku upp mikinn hlátur. Smiðurinn sagði:
Maður getur ekki grínazt lengur með Nonna; hann er fínn félagi.
Hláturinn barst inn til konunnar sem flýtti sér í stofugluggann, dró tjaldið
frá og sá smiðinn halda um öxl sonar síns, sem hló fullum hálsi og rótaðist
í sandhlassinu, en Páll hafði stungið hnefunum í vasaopin glottandi að þeim
og velti vöngum tvístígandi á steypubrettinu.
í snatri hellti hún mjólk og hveiti í skál, braut egg á brún hennar, stakk
325