Tímarit Máls og menningar - 01.12.1965, Blaðsíða 49
Kalt stríð
sér eftir rúninginn, en Hreggviður sat uppi og naut unihverfisins. Allt sem
fyrir augað bar, var honum gamalkunnugt, og hann sá það eins og í einhverj-
um mildum bláma, þó að ekki væri fjarlægðunum fyrir að fara. Hvað eftir
annað varð honum litið upp eftir brekkunni, þar sem hann lá, því að hann
þóttist aldrei hafa séð fegurri blágresisbreiður um sína daga, enda þótt hann
hefði reyndar séð þessa sömu brekku skarta sínu fegursta á hverju vori öll
uppvaxtarárin. Þegar hann horfði á hlómin næst sér, kom honum allt í einu
í hug, að þessi litlu og ofurfíngerðu blágresisblóm báru sama lit og hamra-
fjöllin, þegar bjart var yfir. Og hann fór að hugleiða, hversu þessi undarlegi
blendingur af bláu og rauðu hafði öðruvísi áhrif en allir aðrir litir, hve
fj ólublái liturinn hefur undraverðan seiðmátt og hversu hann laðar til draum-
lyndis. Mundi hann ekki eiga sinn þátt í því að móta lyndiseinkunn þess fólks,
sem landið byggði?
En áður en varði var hugur hans kominn út í aðra sálma.
„Eg komst lítið að heima við borðið áðan,“ sagði hann fyrst orða, „enda
kærði ég mig ekkert um að grípa fram í fyrir þér, því að útlistun þín var
mjög umhugsunarverð. En því er ekki að leyna, að sitthvað hef ég við sjónar-
mið þitt að athuga. Og þar sem ég hef, eins og þú sagðir, gerzt virkur þátt-
takandi í þeirri framvindu, sem þú virðist finna flest til foráttu, þá ber mér
raunar skylda til að snúast til varna.“
„Lát heyra, bróðir,“ anzaði Þráinn, þar sem hann lá á bakið við hliðina
á honum og opnaði ekki einu sinni augun.
Eftir stutta þögn tók Hreggviður til máls:
„Bróðir, segir þú. Það má til sanns vegar færa. Við erum upp runnir á
sömu slóðum og við sömu skilyrði, vorum nánir kunningjar, störfuðum í sama
ungmennafélagi, áttum svipaðar framtiðarvonir. Þessi samfylgd á æskuár-
unum rifjast nú upp fyrir mér, þegar við hittumst aftur, aldraðir menn, og
berum saman hinar óliku bækur okkar. Þó að minningarnar séu skýrar, finn
ég jafnframt betur en nokkru sinni fyrr, hversu langt er um liðið, síðan við
slitum barnsskónum, hve ótrúlega mikil saga hefur gerzt um okkar daga. Og
það er eðlilegt að skoða það, sem orðið er, í ljósi þess, sem ætlað var.
Á uppvaxtarárum okkar gekk bjartsýnis- og hrifningaralda yfir landið, svo
að líklega hafa Islendingar ekki í annan tíma verið trúmeiri á framtíð sína.
Þessi alda náði inn til innstu dala, þar á meðal til okkar.
Við munuin óefað báðir vel eftir ungmennafélagsfundunum, sem við sótt-
um á veturna, oftast fótgangandi langa leið, iðulega í þungu færi og skamm-
degismyrkri. Þeir voru haldnir á víxl á þeim bæjunmn, sem rýmst húsakynni
287