Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2012, Page 26
var þeim feðgum þungbært þegar liðagigt tók að herja á Sigríði þá hún var
um fimmtugt - eða um 1970 - og gerði síðar alla ferlivist hennar örðuga.
Jón bar hana alla tíð á höndum sér og sinnti henni allt þar til hann hélt
utan til náms árið 1986, fluttist úr foreldrahúsum, úr Bræðraborg, en þá
var faðir hans kominn á eftirlaun - eða „lentur“ eins og Asgeir sagði oft.
En þótt hann væri farinn til náms í Suður-Kaliforníu þá kom hann iðulega
heim og hafði engri umhyggjusemi gleymt. Sigríður, móðir hans, lést árið
1995 - blessuð veri minning hennar.
Jón lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1977 og
hóf síðar nám í guðfræðideild og lauk því árið 1986. Samhliða guðfræði-
náminu stundaði hann latínu- og grískunám í heimspekideildinni. Að
guðfræðiprófi loknu hélt hann utan til náms í Claremont-háskóla. Nam
hann koptísk fræði, sýrlensku og nýjatestamentisfræði ásamt þjóðsagna-
fræði. Doktorsritgerð varði hann í koptískum fræðum árið 1998. Meðfram
námi ytra starfaði hann á Fornfræðistofnun Claremont-háskóla, og var
framkvæmdastjóri hennar í tæpan áratug. Hann var svo ráðinn prófessor
í nýjatestamentisfræðum við guðfræðideild Háskóla Islands árið 1999 og
starfaði þar allt til dauðadags.
Jón var alla tíð vinnuharður við sjálfan sig, gerði miklar kröfur til
sín sem og reyndar stúdenta sinna og samstarfsmanna. Hann var virtur
vel í fræðaheimi sínum og hafði forystu fyrir ýmsum rannsóknarhópum
bæði í Bandaríkjunum og á Norðurlöndunum. Stýrði málstofum og flutti
fjölmarga fyrirlestra á fræðaþingum og nú síðast í sumar í London enda
þótt sárlasinn væri. Hann var sömuleiðis ritstjóri fjölmargra erlendra bóka
í fræðum sínum, skrifaði sjálfur bækur, greinar í tímarit hér heima og í
útlöndum. Það voru mikil tímamót þegar þýðing hans á Tómasarguðspjalli
kom út árið 2001. Tómas var hans maður.
Lengi vel var haldið að Jón Ma. myndi setjast að fyrir fullt og fast í
Bandaríkjunum. Hann hafði komið sér vel fýrir og bjó í góðu húsi í Alta
Loma í Suður-Kaliforníu sem hann nefndi Heiðlönd á Gimli. Hann kunni
vel við sig þar og átti stóran hóp vina í fræðimannastétt og marga kunningja.
Ásgeir faðir hans kom reglulega í heimsókn og dvaldist hjá syni sínum. Vinir
hans í Bandaríkjunum trega fráfall hans sem og drengirnir tveir frá Búrma
sem hann studdi með ýmsum hætti og eru nú fulltíða og kvæntir menn.
En heim sneri hann og fyrstu árin var ekki laust við að andblær Ameríku
fylgdi honum. Það tók hann nokkurn tíma að kynnast gamla landinu á
nýjan leik en smám saman tók hann það í sátt. Vinir Jóns hér heima úr
24