Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2012, Page 28
Fyrir rúmum þremur árum knúði dyra hjá Jóni mein það sem leiddi
hann til dauða. Það var honum strax ljóst að tími hans var nú afmældur. En
hann var baráttumaður og ætlaði ekki að gefast svo auðveldlega upp. Jón var
jafnframt raunsær og þá einkum er líða tók á baráttuna uns hann horfðist
í augu við það sem verða vildi. Þrátt fyrir dauðameinið kom skjótt í ljós
hve þrekmikill Jón var að upplagi til sálar og líkama svo undrun vakti hjá
læknum og hjúkrunarfólki hve lengi hann þoldi meðferðina. Hann stefndi
að því að geta verið heima á jólum og yfir áramót. Jólin hélt hann heima
og naut þess á sinn hátt þótt máttfarinn væri. En milli jóla og nýárs lagðist
hann inn á Landspítalann og þar andaðist hann að morgni dags 29. janúar
sl. Það var mildur vetrarmorgunn og fuglar í trjám kvöddu hann með söng
sínum. Gang var hjá honum þegar hann skildi við sem og allt frá því hann
lagðist inn á spítalann því Jón vildi ekki að hann viki frá sér nema til þess
eins að sinna drengnum, Jóni Qiao Sen. Missir þeirra feðga er þungbær og
í öllu veikindastríði Jóns hefur Gang sýnt mikið andlegt þrek og yfirvegun,
mildi og festu.
Jón var margslungin persóna. Enginn var betri vinur vina sinna en
hann. Bóngóður og hlýr í þeli. Sá sem vogaði sér að hallmæla vinum hans
hallmælti honum sjálfum. Traustur og ráðagóður var hann í hvívetna.
Einarður í hverju verki sem hann tók sér fyrir hendur - og glaðsinna og
kíminn - en viðkvæmur í lund og auðsærður og gleymdi seint því sem
gert var á hans hlut. Jón var mikill prívatmaður eins og hann gjarnan sagði
sjálfur - sá hópur sem stóð honum næst var ekki stór. Um veikindi sín hafði
hann ekki hátt og vildi heldur ekki íþyngja öðrum með þeim. Hafði alltaf
vissan vara á sér gagnvart öðrum þótt kurteis væri og þægilegur, ræðinn og
röggsamur. Það tók nokkurn tíma að kynnast honum og reyndi stundum
á þolinmæðina en uppskeran var sú að hann reyndist vera gull af manni.
Þá fékkst Jón við ljóðagerð og samdi prósaíska texta. Þeir voru stundum
harla torskildir, í sumum blasti við tilvistarvandi sem hann stóð andspænis
og trúði lesanda sínum fyrir - og þó ekki.
Hann var íhaldssamur um marga hluti og á köflum sérvitur. En sérviska
hans var ekki tilgerðarleg heldur forn á einhvern heillandi hátt þó mörgum
fyndist hún stundum fráleit - en svo er reyndar oft um álit samferða-
manna á skoðunum annarra. Það kom mörgum oft á óvart, að hann, þessi
nákvæmi fræðimaður og kröfuharði, gat verið svo ótrúlega uppátækjasamur
að stappaði nær gjörningum. Hann gat brugðið sér í margvísleg gervi og
kastað hinu og þessu fram svo ekki var víst hvort talað var í alvöru eða ekki.
26