Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2012, Blaðsíða 70
mannkyns og tengist lífinu með einstökum hætti. Landbúnaður felst í
beinni hagnýtingu náttúrunnar, móður Jarðar, og þess sem hún gefur af
sér. Landbúnaður byggist því á lífinu en viðheldur því um leið með því
að framleiða fæðu fyrir gjörvallt mannkyn. Tæknivæðing í landbúnaði,
iðnbylting landbúnaðarins, skiptir líka miklu máli þar sem hún markar
upphaf nútímans í mörgum löndum þriðja heimsins.
Það sem hér er um að ræða er hin svokallaða grœna. bylting sem gekk
yfir um miðbik 20. aldar og þróaðist hvað örast um 1960 en heiti hennar
kom fram 1968. Um daga grænu byltingarinnar var tekið að knýja land-
búnaðarframleiðslu, ekki síst ræktun hrísgrjóna og maíss, áfram með vali og
kynbótum fræja, sem og stórtækum áveituframkvæmdum er vissulega áttu
sér langa sögu. Helsta nýjungin fólst þó í sérhæfðri „verksmiðjuræktun“
jurta og búfjár, hraðvaxandi notkun nýrra kemískra efna, tilbúnum áburði,
eyðingar-„lyfjum“ gegn skordýrum og illgresi og sýklalyfjum fyrir búpening.
Hratt var gengið á skóga og votlendi, lungu og vatnsforðabúr jarðar.17
Ýmissa áhrifa grænu byltingarinnar gætti að sönnu hér á landi þótt
í smáum stíl væri. Helst má hér benda á stórtæka framræslu lands með
tilheyrandi eyðingu votlendis og þeim breytingum á vistkerfinu sem henni
er samfara. Hér reyndi þó nýsköpun á öðrum sviðum enn meir á þanþol
náttúrunnar. Má þar nefna stöðugt stórtækari fiskveiðar uns tekið var að
þróa markvissa stjórnun þeirra sem byggð var á rannsóknum og eftirliti.
Einkum er það þó raforkuframleiðslan sem valdið hefur árekstri milli
náttúru og nútímavæðingar í íslensku atvinnulífi. Má líta á tímabilið
1977-2007 sem byltingartímabil í þessu efni er stórvirkjanir voru reistar
á hálendinu.18 Lengst af á 20. öld var gengið út frá fullnýtingarstefnu sem
fól í sér að virkja bæri allt nýtilegt vatnsafl í landinu. Undir lok aldarinnar
tók sú stefna vissulega að rekast á við aðra landnýtingu, fyrst í landbúnaði
en síðar ferðaþjónustu, sem og nýja sýn á náttúruna og gildi hennar. Allt
fram á síðari ár var þó sú stefna rekin að raforkuframleiðsla til orkufreks
iðnaðar á vegum erlendra stórfyrirtækja (auðhringa) væri fysilegur kostur til
auðlindanýtingar og hann bæri að hagnýta til hins ýtrasta.19
Þær „byltingar“ sem hér hafa verið nefndar svo, vísinda- og tæknibylt-
ingin ásamt grænu byltingunni, ollu því að nútíminn hóf innreið sína
í Vesturheimi og síðar að breyttu breytanda annars staðar í heiminum.
17 Green Revolution. Slóð, sjá heimildaskrá.
18 Unnur Birna Karlsdóttir, 2010: 147-156.
19 Unnur Birna Karlsdóttir, 2010: 203-210. Sjá og Andri Snær Magnason, 2006.
68