Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2012, Page 98
Spurningin sem fyrri kynslóðir þurftu að glíma við, „Hvað á ég að gera?“,
hefur verið leyst af hólmi með spurningunni: „Hvað get ég gert?“ Menn
standa nú frammi fyrir þeirri staðreynd að geta ekki nýtt sér allt sem þeim
stendur til boða, hvað þá að rækta alla sína hæfileika. Valkvíði og sú nagandi
óvissa um að hafa tekið ranga ákvörðun nærir óöryggi og angist. Þegar
eitt er valið er um leið búið að útiloka annað og oft er ekki aftur snúið.
Nútímamaðurinn er undir stöðugu áreiti um að taka ákvarðanir, valfrelsið
er orðið ok. Það er honum ánauð, svo þverstæðukennt sem það hljómar.
Tök stofnana á einstaklingnum hafa dregist saman með þeim afleiðingum
að hver og einn verður að byggja á sjálfum sér og getu sinni til að móta eigið
líf. Stofnanavæðing samfélagsins hefur verið ör og leyst af hólmi tengslanet
fyrri tíma og samtímis hefur átt sér stað einkalífsvæðing persónulegs lífs
manna.
Sjálfræði og forræðishyggja
Þessi breytta staða hefur gefið þeirri hugmynd byr undir báða vængi að
raunverulegt mannlegt samfélag tilheyri fortíðinni þegar raunveruleg gildi
voru höfð í heiðri. Þá höfðu menn sterk tengsl við fáa og skýr gildi. En í
nútímanum þurfa einstaklingar að mynda veik tengsl við fjölda manna og
verða að styðjast við síbreytileg gildi. Nú á dögum búa einstaklingar ekki
við trygga og örugga fjölskyldu, vinnu, skóla og stjórnmál. Margir eru þess
vegna reiðubúnir að gefa eftir sjálfræði sitt fyrir öryggi sem fortíðarþráin
málar svo skærum litum. Þar lutu menn vissulega yfirvaldi en voru öruggir.
Þeim var skorinn þröngur stakkur en staða þeirra var virt. Þessi sýn er
útbreidd þegar erfiðleika samtímans ber á góma.
Þegar við aftur á móti athugum hvað einkennir nútímasamfélag kemur í
ljós að því til grundvallar liggur einstaklingshyggjan. í um 200 ár hafa margir
haldið því fram að rótin að meini samtíðarinnar sé sjálfræði einstaklingsins.
Það grafi undan hefðbundnum gildum og stofnunum. Nægir að huga hér
að fjölskyldunni sem skroppið hafi saman í kjarnafjölskyldu sem á í vök að
verjast, o.s.frv.
Þessu er auðvelt að andmæla því varla er hægt að segja að mannlegt
líf sé nú til dags minna virkt félagslega, stjórnmálalega og stofnunarlega
en áður, nema síður sé. Það sem hefur aftur á móti breyst er að félagsleg
tengsl manna eru nú öðruvísi. Sjálfræðið hefur fært mönnum meira firelsi
og ábyrgð sem menn þurfa sjálfir að raungera og bera.
%