Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2012, Page 105
heiminn og þeir voru miklir þjóðernissinnar og heitir í baráttu sinni fyrir
eflingu íslenskra þjóðréttinda. A námsárum sínum skrifaði Helgi nokkrar
greinar um hugðarefni sín í tímaritið Sunnanfara sem íslenskir menntamenn
í Kaupmannahöfn gáfu út og má segja að hann hafi verið í fararbroddi
þeirra sem voru róttækastir á þessum árum.
Miklar vonir voru bundnar við þennan glæsilega námsmann og leiðir
til rannsóknarstarfa opnuðust og hann tók þátt í rannsóknarleiðangri til
Grænlands sama ár og hann útskrifaðist frá háskólanum í Kaupmannahöfn.
Þar er talið að hann hafi ofgert heilsu sinni og má rekja vanheilsu þá sem
hann átti oft við að stríða til áfalls sem hann varð fyrir í þessari ferð.6 Arið
1905 kom út rannsóknarrit eftir hann um jarðfræði Islands og var hann
sæmdur doktorsnafnbót fyrir það verk af Kaupmannahafnarháskóla. Var
hann fyrstur íslenskra jarðfræðinga til að hljóta þá nafnbót. Hann komst í
tengsl við erlenda fræðimenn og vísindastofnanir, fékk rannsóknarstyrki og
birti greinar á fræðasviði sínu.
Um aldamótin 1900 fór Helgi að kynna sér rannsóknir og skrif um svefn
og drauma og í framhaldi af því kynnti hann sér niðurstöður sálarrannsókna
(e. psychic research) og kenningar spíritista og annarra um miðlafyrirbæri,
dásvefn og hugsanaflutning. Hóf hann sjálfur að rannsaka þessi fyrirbæri út
frá eigin reynslu en tók einnig þátt í miðilsfundum. Frá árinu 1904 voru
hæg heimatökin í þessu efni í Reykjavík því þá kom upp mikill og almennur
áhugi á sálarrannsóknum og spíritisma. Stofnað var sérstakt félag áhugafólks
úr efri stéttum Reykvíkinga um þessi mál, Tilraunafélagið, en nafn Helga
er þó ekki að finna á félagaskrám sem varðveist hafa frá því.7 Helgi virðist
hafa lesið mikið um það sem birtist um þessi mál erlendis en töluverður
áhugi var á þessum fyrirbærum meðal menntamanna, einkum á Englandi
og í Ameríku.
A þessum árum verður Helgi fyrir dulrænni reynslu sem átti eftir að
hafa mótandi áhrif á hugsun hans og val á viðfangsefnum það sem eftir var
ævinnar. Hann getur um þessa reynslu í blaðagrein árið 1912 en ítarlegri
lýsing birtist síðar.8 Þessi reynsla fól í sér persónuleg tengsl Helga við æðri
6 Steindór Steindórsson skólameistari Menntaskólans á Akureyri greindi frá þessu í kennslustund
í sögu íslenskrar jarðfræði. Sagði hann svo frá að Helgi hefði látið kjöldraga sig til þess að sýna
félögum sínum og sanna hreysti sína en ofkældist við það og missti svefn.
7 Pétur Pétursson, Trúmaður á tímamótum. Ævisaga Haralds Níelssonar, Reykjavík: Hið íslenska
Bókmenntafélag, bls. 203.
8 Helgi Pjeturss, Valdar ritgerðir I, Reykjavík: Skákprent, 1991, bls. 262
103