Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2012, Page 110
um þessi ólíku svið talar Helgi um stjörnur þar sem líf finnst og er lífið á
þessum stjörnum mismunandi að göfgi og þroska.
Helgi Pjeturss og guðspekin
Árið 1914 er Helgi á skrá sem félagi í guðspekistúku í Reykjavík. Hann
kynnti sér einnig kenningar Guðspekifélagsins og þær urðu honum mikil-
vægur brunnur að ausa úr við mótun heimsfræði sinnar. Segja má að
guðspekin og spíritisminn hafi verið greinar á meiði fjölskrúðugra dulspeki-
hugmynda sem áttu upp á pallborðið hjá ýmsum hópum menntamanna og
millistéttarfólks á seinni hluta 19. aldar. Guðspekifélagið var stofnað árið
1875 fyrir tilstilli konu af rússneskum ættum. Það var frú Helena Petrovna
Blavatsky sem ferðaðist víða og átti mjög litríkan feril að baki. Að henni
safnaðist úr ýmsum áttum áhugafólk um dulspeki og andleg mál, ekki síst
austræna trú og heimspeki og átti það sinn þátt í að Guðspekihreyfingin
flutti alþjóðamiðstöð sína frá New York til Indlands.19
Blavatsky taldi sig hafa miðilshæfileika og birti upplýsingar sem hún
sagðist hafa fengið á dularfullan hátt frá þróuðum viskuöndum (e. Mahatmas)
sem höfðust við í Himalajafjöllum.20 Hún hafði samband við Breska sálar-
rannsóknarfélagið sem stofnað var árið 1882 og beitti gagnrýnum aðferðum
við greiningu á meintum upplýsingum af þessu tagi. Hefur hún án efa viljað
fá gæðastimpil frá því félagi. Það sendi fulltrúa sinn til Indlands til að kanna
miðilssamband Blavatsky og hann kvað upp úr með það að hún væri svika-
miðill.21 En hún var ekki af baki dottin enda hafði hún víða ítök í heimi
dulspekinga. Hún eignaðist áhrifamikla stuðningsmenn sem lögðu henni lið
í mótun kenninga sinna, enda aflaði hún víða fanga, bæði í evrópskum og
í austrænum heimspekihefðum og trúarbrögðum. Hún skrifaði bækur og
greinar sem bárust víða og höfðu mikil áhrif á ýmsa höfunda, menntamenn
og listamenn.
í ritum sínum leitaðist Blavatsky við að samþætta vestræna vísindahyggju
trúarbrögðum og dulspeki þannig að þau höfðuðu til fólks sem væri í þörf
fyrir andlega næringu sem það fengi ekki lengur í hefðbundnum kirkju-
deildum. Á þessum tíma ógnaði þróunarkenningu Darwins trú menntafólks
19 David Douglas, The Atlas of Lost Cults and Mystery Religions, New York: A Godsfield Book,
2009, bls. 142-146.
20 Helgi Pjeturss tók fullyrðingar Blavatsky um Mahatma-meistarana gildar en taldi þá ekki staðsetta
í Himalajafjöllunum heldur á stjörnum þar sem lífið væri þróaðra en á jörðinni, Nýall, bls. 83.
21 James Webb, The Occult Underground.
108