Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2012, Page 148
stendur höllum fæti í lífinu. Slík nálgun finnst mér varhugaverð siðfræðilega
vegna þess að hún leggur ákveðna byrði á herðar þolandanum sem gæti leiðst
til að trúa því að öll lækning og bót byggist á frumkvæði hans og ákvörðun.
Fyrirgefningin verður hans verk og byggir á vali hans og vilja. Kröfuna um
fyrirgefningu má því nota sem tæki til að knýja fram fyrirgefningu þar sem
engin slík er í raun til staðar. Ef t.d. prestar halda fram áhrifamætti fyrir-
gefningarinnar sem töfralyfs við sóknarbarn og bæta því síðan við að það sé
skylda hverrar kristinnar manneskju að fyrirgefa, eins og Guð hafi fyrirgefið
mönnum, þá má líta á það sem ákveðið kúgunartæki. Kenningarvald og
kærleiksboðskapur kirkju og kristni getur þannig orðið að skyldu sem verður
að axla. Gagnrýni af þessu tagi er ekki ný af nálinni heldur hafa fleiri orðið
til þess að benda á þetta og ítrekað að fyrirgefning sé ferli sem taki tíma og
ekki viljaverknaður á ákveðnum stað og stund.19 Undir þetta vil ég taka.
Gagnrýni mín á fyrirgefningarskilning í samtímanum er þó ekki sett fram
í þeim tilgangi að rýra gildi fyrirgefningarinnar almennt sem græðandi og
endurreisandi afls fyrir einstaklinga og samfélög. Margir geta borið vitni
um það og því ekki erfitt að skilja af hverju fyrirgefning hefur verið sett
fram sem dygð og hugsjón í mannlegu samfélagi, ekki síst í trúarlegu og
kristnu samhengi. En í stað þess að bæta enn einni ritsmíðinni við í það
mikla safn sem fyrir liggur um gæði og gildi fyrirgefningarinnar mun ég nú
sveigja umræðuna inn á brautir þess að fyrirgefa ekki og beina sjónum að
gremjunni og hugsanlegu gildi hennar fyrir einstaklinga og samfélag. Sem
inngang að því umfjöllunarefni mun ég staldra við og taka örfá dæmi um
gagnrýnin sjónarhorn á fyrirgefninguna á tuttugustu öld þar sem þekktir
heimspekingar og guðfræðingar hafa lagt fram drjúgan skerf.
Að fyrirgefa ekki
Fyrirgefningin sem dygð hefur oft verið gagnrýnd í kristnu samhengi. Þekkt
er gagnrýni guðfræðingsins Dietrichs Bonhoeffer (1906-1945) á hina ódýru
fyrirgefningu en hann áleit fyrirgefningu þægilegan máta fyrir afbrota-
manninn til þess að breiða yfir syndir sínar án þess að iðrast þeirra í raun.20
19 Hér má nefna Marie M. Fortune sem hefur áratuga reynslu af meðferðarvinnu með þolendum
heimilis- og kynferðisofbeldis, sjá t.d. grein hennar „Preaching Forgiveness?“, Telling the Truth.
Preaching about sexual and domestic violence, John S. McClure og Nancy J. Ramsay (ritstj.),
Cleveland, Ohio: United Church Press, 1998, bls. 49-57.
20 Dietrich Bonhoeffer, Efterfóljelse, þýðandi Ylva Eggehorn, Stockholm: Gummessons, 1978, bls.
14, Sólveig Anna Bóasdóttir, „Abyrg og réttlát viðbrögð gagnvart þolendum kynferðisofbeldis.
Guðfræðileg og siðfræðilegt sjónarhorn", Ritröð Guðfrœðistofnunar, 2011:1, bls. 97-117, hér 112.
146