Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2012, Blaðsíða 149
Annars konar gagnrýni kemur frá heimspekingnum Friedrich Nietzsche
(1844-1900) sem taldi kröfuna um að íyrirgefa misgjörðir annarra í fyrsta
lagi oft ekki eiga rétt á sér og í öðru lagi væri það veikleikamerki af hálfu
þolanda ef hann teldi sig þurfa að fyrirgefa. Að mati Nietzsches hefur sterkur
persónuleiki ekki þörf fyrir að fyrirgefa þeim sem hefur brotið á honum.21
Gagnrýni þeirra Bonhoeffers og Nietzsches snýr sín að hvorum aðilanum
sem hlutdeild á í fyrirgefningunni, ef svo má að orði komast: Bonhoeffer
horfir til þess sem hefur gerst brotlegur og telur hann sleppa of auðveldlega
vegna of skjótrar fyrirgefningar af hálfu brotaþola en Nietzsche horfir
til fórnarlambsins og hvetur það til að láta fyrirgefninguna lönd og leið.
Hvorugur þeirra Bonhoeffers og Nietzsches veltir fyrir sér spurningunni
um hvað sé mögulegt að fyrirgefa. Það hafa aðrir gert, eins og t.d. heim-
spekingurinn Jacques Derrida (1930-2004) og guðfræðingurinn Knut L.
Logstrup (1905-1981) en báðir virðast sammála um að tal um fyrirgefningu
eigi einungis að tengja því sem sé í raun ófyrirgefanlegt. Það sem hægt er
að biðjast afsökunar á og bæta fyrir, þarf ekki að fyrirgefa, að þeirra mati,
þau vandamál eiga sína lausn, nefnilega afsökunarbeiðni og bætur. Einungis
hið ófyrirgefanlega sé viðfangsefni fyrirgefningarinnar!22
Hér eru áhugaverð sjónarmið á ferð sem auðveldlega má tengja umræðunni
að framan. I þeirri umræðu kom m.a. skýrt fram hve margvísleg merking er
lögð í fyrirgefningarhugtakið. Abending þeirra Derrida og Logstrups um að
rétt sé að aðgreina fyrirgefningu frá ýmsu öðru sem á sér nú þegar önnur
heiti sem allir skilja, svo sem að biðjast afsökunar, sættast, bæta fyrir o.s.frv.
er til bóta að mínu mati. Eftir stendur þó spurningin um hvað sé hægt að
fyrirgefa. Sú spurning beinir okkur inn á brautir hins ófyrirgefanlega. Það
sem er talið ófyrirgefanlegt er yfirleitt tengt illverkum og grimmd sem er
á mærum þess hugsanlega, skiljanlega og bærilega. Skilning Logstrups má
tengja einmitt þessu og guðfræðileg túlkun hans er athyglisverð fyrir margra
hluta sakir. Augljóst er að hann vill ekki tala um fyrirgefningu þegar um er
að ræða smávægileg, hversdagsleg atvik, nefnilega yfirsjónir og mistök sem
hægt er að biðjast afsökunar á og bæta fyrir. Fremur tekur hann hugtakið
frá fyrir fyrirbæri sem tengjast hinu ófyrirgefanlega í tvenns konar merkingu.
Annars vegar er það forsenda þess að hægt sé að tala um fyrirgefningu að
21 Friedrich Nietzsche, On the Genealogy ofMorals, Essay I, Section 10, þýðing Walter Kaufmann,
New York: Random House, 1967 (1887), bls. 39.
22 Knut E. Logstrup, Det etiska kravet, Göteborg: Daidalos, 1992, (1956), bls. 240; Jacques Derrida,
On Cosmopolitanism and Forgiveness, London, New York: Routledge, 2003, bls. 32.
147