Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2012, Blaðsíða 150
brot sé svo alvarlegt að algjört upplausnarástand blasi við. Hann tekur
dæmi um svik og ályktar að þegar samband aðila hefur algerlega hrunið í
rúst vegna sviksemi þá sé óhugsandi að nokkru sinni sé hægt að endurreisa
það. Ef slíkt gerist, þrátt fyrir allt, þá sé það líkt og fyrir náð eða kraftaverk.
Þótt hann líki ekki fyrirgefningunni við kraftaverk má skilja það sem gerist
á svipaðan hátt og algengt er að skilja slík fyrirbæri. Fyrirgefning, í huga
Logstrups, er því ekki fyrirbæri sem tilheyrir hinum skynsamlega rök- og
raunheimi heldur gengur hún gegn lögmálum hans. Hún verður ekki til
fyrir atbeina mannsins heldur er hún verk Guðs. Hitt atriðið, sem er skilyrði
þess að hægt sé að kalla það fyrirgefningu, að mati Logstrups, er að brotið
hefði mátt forðast. Brotið byggist á breyskleika mannsins en er ekki hluti af
mannlegu eðli á þann hátt að maðurinn hefði ekki getað breytt á annan veg.23
Það sem er áhugavert við túlkun Logstrups er þrenging hans á hugtakinu.
Fyrirgefningin fær mun sértækari merkingu en gengur og gerist nú um
stundir og er í raun aðeins trúarleg. Með því að gera greinarmun á hversdag-
legum brotum manna annars vegar og mjög alvarlegum brotum hins vegar,
er þetta mögulegt. A flestum brotum, og líkast til langflestum, má biðjast
afsökunar og leitast við að bæta fyrir. Svo eru hin sem eru svo alvarlegs eðlis
að þau eru óbætanleg, óafsakanleg eða það sem hann kallar: ófyrirgefanleg.
Hið óbætanlega og óafsakanlega er ekki á valdi manneskjunnar að fyrirgefa,
það getur aðeins Guð gert. Fyrirgefningin er Guðs og Guðs eins. Engin
skynsemisrök, ekkert vald, hvorki kristið kennivald né sérfræðingavald,
getur farið fram á það við fórnarlömb alvarlegra brota að þau fyrirgefi hið
ófyrirgefanlega. Aðeins Guð getur gert það. Logstrup er því harla ólíklegur
til að ganga í þann máttuga kór samtímamenningar okkar sem syngur
fyrirgefningunni lof og dýrð og lítur á hana sem hreinsun, lyf, ákvörðun og
verk manna. Verk mannsins, myndi Logstrup segja, er að sýna auðmýkt,
biðjast afsökunar á daglegum misgerðum sínum og leitast við að bæta fyrir
brot sín. Fyrirgefning er annað, hún er ekki á færi mannlegs máttar: Hún
er hluti máttarverks Guðs í Jesú Kristi. Ef fyrirgefning á sér stað, þá er það
fyrir tilstilli Guðs.24
23 Knut E. Legstrup, Det etiska kravet, bls. 240-241.
24 Freistandi hefði verið að tengja skilning Logstrups við túlkun Hönnu Arendt (1904-1975)
á fyrirgefningu í bókinni Responsibility and Judgment, New York: Schocken books, 2003, en
það verður ekki gert í þessari grein. Arendt hafði þá skoðun að það sem ekki væri hægt að
refsa fyrir væri ekki heldur hægt að fyrirgefa og vísaði þar til grimmdarverka nasista í síðari
heimsstyrjöldinni. Þessi túlkun liggur óneitanlega mjög nálægt skilningi Logstrups.
148