Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2012, Page 151
Eins og vænta má af ofansögðu skrifaði Logstrup ekkert um siðferðilegt
gildi gremjunnar í tengslum við fyrirgefninguna þar sem fyrirgefningar-
hugtak hans er alls óskylt slíkri umræðu. Gremjan er ekki kostur sem hann
hefur áhuga á að fjölyrða um. Fjölmargir guðfræðingar og heimspekingar
tengja þó þetta tvennt saman og er nú komið að gremjunni og siðferðilegu
gildi hennar.
Siðferðilegt gildi gremjunnar
Skilningur Josephs Butler á siðferðilegu gildi gremjunnar byggist á guðs-
skilningi hans, mannskilningi og sýn á samfélagið.25 Guðfræðilega nálgast
hann efnið frá sjónarhóli guðsvarnar (lat. teodicé) og leitast við að verja
þá ráðstöfun skaparans að skapa manneskjur með tilfmningar reiði og
gremju.26 Hvernig getur staðið á því að góður Guð, sem hefur skapað allt á
himni og jörð og kallað sköpun sína „harla góða“ (lMós 1.31), gefur mann-
inum svo öfluga tilfinningu sem gremjan er? spyr Butler. Er ekki gremja
alltaf af hinu illa eða hefur hún mögulega eitthvert jákvætt gildi, og ef svo
er, fyrir hvern? Eftir töluverðar vangaveltur er niðurstaða hugleiðinga Butlers
sú að gremjunni sé ætlað mikilvægt hlutverk í sköpunarverki Guðs sem
felst í kröfu um virðingu fyrir reglum siðferðisins og þar með samfélagsins:
Gremjuna má því túlka sem tjáningu á kærleika Guðs. Með því að fyllast
gremju vegna ranginda og misréttis fordæmir maðurinn hið illa og það í
fullum rétti. Fyrirgefningin, hins vegar, hefur það hlutverk að gæta þess að
við göngum ekki of langt í fordæmingu okkar, hún virkar sem taumhald
til að halda gremjunni innan hæfilegra marka. Fyrirgefningin kemur aldrei
á undan gremjunni og það fyrirfinnst engin krafa um það að fyrirgefa án
skilyrða í kristinni trú, að mati Butlers. Fremur lítur hann svo á að fyrir-
gefningin haldi í humátt á eftir gremjunni, hlutverk hennar er að tempra
gremjuna og sjá til þess að hún fari ekki úr böndum.27
Gremjuhugtak Butlers, sem á var minnst í upphafi, rúmar allt frá reiði til
haturs. Butler viðurkennir að vissulega beinist gremja mannsins oft að ýmsu
smávægilegu og óviðeigandi en vill þó ekki dæma hana einvörðungu af því.
Gremja er af tvennum toga: Snögg og vanstillt eða yfirveguð og meðvituð.
25 Joseph Butler, Fifieen Sermons, bls. 92-101.
26 Hér er átt við að það virðist innbyggð mótsögn fólgin í því að góður Guð geti skapað eitthvað
neikvætt og slæmt í manninum. Guðsvörn felst í því að færa rök gegn því að um innri mótsögn
sé að ræða.
27 Joseph Butler, Fifteen Sermons, bls. 111-113.