Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2012, Side 152
Fyrri gerðina má kalla reiði eða uppnám og sem slík felur gremjan alltaf í sér
eitthvað slæmt, óskynsamlegt og óhóflegt. Skyndileg reiði er tilfinning sem
vaknar fyrirvaralaust og án skynsemi, að mati Butlers. Þó getur upplifun
af eða vitneskja um djúpstætt óréttlæti einnig vakið mikla og skyndilega
reiði og eru þau viðbrögð þá ekki óskynsamleg með öllu. Þessa tegund
gremju tengir Butler frumstæðum varnarviðbrögðum sem hann álítur að
maðurinn hafi þurft á að halda gegnum tíðina til að verjast yfirgangi, ofbeldi
og árásum.28 Hin gerð gremjunnar, hin meðvitaða og yfirvegaða, er af allt
öðrum toga og á meira skylt við siðferðilega dygð. Að upplifa grimmd eða
verða vitni að grimmd, miskunnarleysi eða óréttlæti og óska þess að refsing
komi fyrir, er ekki dæmi um snögga eða fyrirvaralausa reiði og illvilja, heldur
eru þar á ferð yfirveguð varnarviðbrögð gegn illsku sem eru nauðsynleg og
skynsamleg svo að samfélagið liðist ekki í sundur. Slíka tilfinningu hafa
langflestir einstaklingar gagnvart öðrum verum og gagnvart sjálfum sér og
alls ekkert óstjórnlegt, óhóflegt eða óskynsamlegt við það.29
Greinarmunur og mat Butlers á þessum tveimur tegundum gremju
er athyglisverður, firá siðfræðilegum sjónarhóli séð. Hvort tveggja tengist
mannskilningi hans. Að hans áliti er manninum það eiginlegt að láta sér
annt um eigin velferð og sinna nánustu og af því leiðir að það er eðlilegt að
hann bregðist við árásum og fólskuverkum gegn sér og sínum með tilfinn-
ingum gremju. Það sem manninum gremst er það sem særir eða skaðar
hann sjálfan, eða þá sem eru honum nákomnir. Gremja af þessum toga er
yfirleitt yfirveguð og beinist að skaða fremur en að skyndilegum sársauka
eða missi. Skyndileg gremja getur þó í vissum tilvikum verið viðbragð við
skaða og ekki aðeins sársauka og getur því beinst að því sama og yfirveguð
gremja. Eðlismunur þessara tveggja gerða gremju er þó staðreynd og því ljóst
að hin yfirvegaða gremja verður aldrei til af sömu sökum og hin skyndilega.
Eðlilegt markmið hennar beinist einungis að því að lagfæra skaðann eða
forða honum og er aldrei einungis viðbragð við sársauka. Kjarni þessara
hugleiðinga Butlers um tvenns konar gremju er að markmið yfirvegaðrar
gremju er siðferðilegt og miðast að því að forða skaða og lagfæra skaða.
Hina yfirveguðu gremju, og einungis hana, má því líta á sem tæki eða vörn
gegn skaða, óréttlæti og grimmd og þetta fyrirbæri hefur maðurinn öðlast
sem gjöf úr hendi skaparans.30
28 Sama heimild, bls. 94-95.
29 Sama heimild, bls. 96.
30 Sama heimild, bls. 96-97.
150