Tímarit Máls og menningar - 01.11.2010, Blaðsíða 26
26 TMM 2010 · 4
Haukur Már Helgason
Að vera eyland
„Við gerum þetta til að ganga ekki af göflunum,“ svaraði Haraldur, hávaxinn,
taugaóstyrkur og grannvaxinn maður með augu sem búa yfir samþjapp
aðri orku leysigeisla. Til að ganga ekki af göflunum? „Já, til að halda aftur af
skepnunni.“ Skepnunni? „Skepnan er Ísland, þessi skelfilega harðbýla eyja sem
við búum á, með sínu napra og síbreytilega veðri. Þetta er hin dimma tröllriðu
veröld Goya, fögur og grótesk í senn. Þetta er hin dyntótta skepna Ísland. Við
getum ekki flúið hana. Svo við finnum ráð til að lifa með henni, temja hana. Ég
geri það í myndlistinni,“
Haraldur Jónsson, myndlistarmaður.1
Í bók sinni Uppreisn fjöldans frá 1929 kynnir José Ortega y Gasset
hugmynd um ríkið sem merkingarbært verkefni sem beinist að fram
tíðinni.2 Þessum tveimur samtengdu sviðum hefur verið útskúfað úr
íslenskum stjórnmálum um langa hríð – hugmyndinni um framtíð, og
merkingu sem einu af hlutverkum tungumálsins. Ég er kominn á þá
skoðun að þetta ástand sé svo inngróið að reyna megi að skilja landið
mitt í ljósi hugtaksins geðklofi.
Hvernig líkar þér við mig?
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var sérkennilega borubrattur
þegar hann birtist í fréttum BBC vorið 2010 og útskýrði hvaða lærdóma
draga mætti af gosinu í Eyjafjallajökli. Forsetinn glotti á meðan hann
gaf út viðvörun til áhorfenda um heim allan:
Ég held að við höfum umfram allt lært að það eru náttúruöfl að verki í þessu
landi, samspil eldvirkni og jökla í þessum landshluta, sem getur valdið þróuðu
samfélagi nútímans óheyrilegum skaða um langa hríð. Því miður er það sem
við höfum fylgst með síðustu daga ef til vill aðeins upphaf þess sem menn eiga
eftir að finna fyrir alla 21. öldina. Enda ber saga þessara eldfjalla í landi mínu
það með sér að þau munu gjósa reglulega og senn líður t.d. að því að Katla fari