Tímarit Máls og menningar - 01.11.2010, Blaðsíða 61
TMM 2010 · 4 61
Hrafn Jökulsson
Home alone and happy
Ég bjó við Laugaveg, leigði herbergi með eldhúskrók og baði. Stúdíó á
besta stað, stóð í auglýsingunni, en það var túlkunaratriði einsog svo
margt í lífinu. Þegar ég lá í baðinu gat ég hlustað á viðskiptin sem fóru
fram á knæpu á jarðhæðinni, nánar tiltekið þann hluta þeirra sem
þreifst bakvið luktar dyr á klósettinu: þar díluðu hraðmæltir sölumenn
og óðamála kúnnar með eðalstöff, sem undantekningalaust var betra en
síðast, og alltaf var líka meiriháttar efni á leiðinni. Ég hlustaði á ráman
hlátur, eiðstafi og upphrópanir. Þetta var söfnuður sem tilbað heilagan
Vá’mar.
Ég leit þangað stundum inn og var alltaf tekið einsog glataða syn
inum.
En oftast var ég einn í mínu stúdíói á besta stað og þegar ég nennti
ekki að hlusta á beinu útsendinguna frá helvíti ýtti ég á takka og hlustaði
á Emilönu Torrini, sem alltaf var home alone and happy. Ég skipti aldrei
um disk þá mánuði sem ég bjó þarna, dögum og nóttum saman var rödd
hennar sú eina sem hljómaði í stúdíói á besta stað, nema þegar ég talaði
við sjálfan mig. Ég vildi óska þess að ég gæti skrifað eina setningu sem
væri samboðin rödd Emiliönu Torrini, en ég verð að láta mér nægja að
segja þetta: Hún hélt í mér lífinu.
***
Emiliana og indíánarnir. Ég hlusta á Emiliönu og les indíánabækur.
„Allt á jörðinni hefur tilgang, við öllum sjúkdómum er til lækningajurt,
og allar manneskjur hafa köllun. Þetta er kenning indíána um tilveruna,“
segir Mourning Dove, fyrsta indíánakonan sem gaf út skáldsögu.
Hún var drepin árið 1936, einsog Federico Garcia Lorca, og í báðum
tilvikum sluppu morðingjarnir við refsingu.