Tímarit Máls og menningar - 01.11.2010, Blaðsíða 5
TMM 2010 · 4 5
Pétur Gunnarsson
Ef ég gæti ekki elskað þessa þjóð
Fyrirlestur Sigurðar Nordals 2010
Ágæta samkoma,
það er kærkomið tækifæri að ræða við ykkur um Sigurð Nordal á
þessum degi, svo hugstæður sem hann hefur verið mér allt frá unglings
árum. Rithöfundurinn Sigurður Nordal, að sjálfsögðu, og þá á ég ekki
aðeins við höfund Fornra ásta sem vöktu með ungum manni hrif þess
eðlis að hann fýsti að framkalla þau sjálfur – sá reyndar að annar
hafði gert það áður – að Álfur og Dísa í Fornum ástum höfðu gengið í
endurnýjun lífdaga sem Steinn og Diljá í Vefaranum mikla frá Kasmír.
Skáldið já, en ekki síður skáldið í fræðimanninum. Í því sambandi væri
vert að staldra við og fagna hve við höfum átt vel skrifandi fræðimenn
um dagana, ég nefni, auk Sigurðar, nafna hans Þórarinsson í jarðfræði,
Kristján Eldjárn í fornleifafræði, Björn Þorsteinsson í sagnfræði og Þor
stein Gylfason í heimspeki, svo aðeins sé dvalið við nokkra sem látnir
eru. Það eru ekki lítil forréttindi að mega ferðast á fyrsta farrými um
hinar ýmsu fræðigreinar og þá er samfylgdin ekki minna verð og gildir
svo ríkulega um Sigurð, hann tekur lesandann ævinlega með sér, skilur
hann aldrei eftir, í stuttu máli góður ferðafélagi.
Að því sögðu tek ég fram að ég hafði engin persónuleg kynni af
Sigurði Nordal, við sátum einusinni saman á Mokka, snerum eiginlega
bökum saman sem skýrist af fyrirkomulagi básanna á nefndu kaffihúsi.
Á móti Sigurði sat Agnar Þórðarson, þá bókavörður á Landsbókasafninu
við Hverfisgötu, þeir voru að fella dóma um íslenska rithöfunda. Til að
missa örugglega ekki af neinu reigði ég mig svo aftur í sætinu að segja
má að hnakkar okkar Sigurðar hafi snerst. Það var Sigurður sem hafði
orðið, þetta var bókmenntasaga beint í æð með aðaláherslu á hinu flókna
sambandi Davíðs Stefánssonar og Halldórs Kiljan og engu síður snúnu
sambandi Sigurðar við þá báða. Ég hef sjaldan upplifað jafn bókstaflega
orðasambandið „að vera allur ein eyru“. En í miðjum klíðum gekk