Tímarit Máls og menningar - 01.11.2010, Blaðsíða 62
H r a f n J ö k u l s s o n
62 TMM 2010 · 4
***
Leigusalinn bjó á efstu hæð og leit út einsog nýlenduherra frá annarri
öld, í vínrauðum slopp með gullbryddingum. Hann hafði líka veiðisögur
á hraðbergi og gat bent á fórnarlömbin jafnóðum: laxinn, tígrisdýrið,
elginn. Það var einsog Örkin hans Nóa hefði strandað við Laugaveg
nema hér voru allir dauðir, og ég sá leigusalann minn í alveg nýju ljósi:
kannski var ég dæmdur til að sitja hér til eilífðarnóns og hlusta á sögur
af laxveiði í Hvítá með Karli Bretaprinsi. „Hann var svo alþýðlegur og
skemmtilegur,“ segir leigusalinn í rauða sloppnum, búinn að bjóða upp á
púrtvín og telur kímnigáfu ríkiserfingjans stórlega vanmetna: „Do you
seriously expect me to be the first prince of Wales not to have a mistress?
Ha? Elsku drengurinn.“
***
Knæpan var á jarðhæð, síðan tóku við tvær hæðir af stúdíóíbúðum á
besta stað, og yfir öllu nýlenduherrann á efstu hæð. Nágrannar mínir
á hæðinni voru dansmeyjar frá Rússlandi og atvinnulaus rútubílstjóri.
Hann hafði misst prófið, vinnuna, konuna og húsið, allt í sömu vikunni.
Hann var einmana og elskulegur, og við fengum okkur stundum kaffi í
íbúðinni hans, sem var stærri en mín og betur búin, og sneri þar að auki
að götunni. Hann var að bíða eftir svari við náðunarbeiðni frá forseta
lýðveldisins, svo hann fengi bílprófið aftur, „ég er nú Ísfirðingur og það
er ekki eins og ég hafi drepið neinn“. Ég fékk söguna strax yfir fyrsta
kaffibollanum, sem var ríkulega bragðbættur með landa frá frænda
hans á Jökuldal; konan hafði verið í helgarferð í Glasgow og hann gerði
sér glaðan dag á meðan, datt í það og hlustaði á Hauk Morthens, einn
heima og happí, en þá hafði allt í einu komið yfir hann óviðráðanleg
löngun í harðfisk, hann réð ekkert við sig þegar harðfiskur var annars
vegar, og hann keyrði þennan spöl í búðina og var tekinn af hverfislögg
unni á bakaleiðinni, glaður og reifur með Hauk Morthens í botni og
fullan munninn af harðfiski.
Hann missti prófið á staðnum og var rekinn að heiman þegar konan
kom frá Glasgow. Nú var hann atvinnulaus og bjó á stað þar sem fæstir
höfðu lögheimili lengi, „allt út af harðfiski, hugsaðu þér,“ segir hann, og
við lyftum skörðóttum bollum og skálum fyrir forseta lýðveldisins.
***