Tímarit Máls og menningar - 01.11.2010, Blaðsíða 85
L e s i ð í s k u g g a h r u n s i n s
TMM 2010 · 4 85
Sögur Jóns Kalmans eru ein samfelld áskorun til lesandans um að hægja
á sér og hugsa um hugtök og fyrirbæri tilvistarinnar sem nútíminn
þykist ekki lengur hafa tíma til að sinna. Rétt eins og í fyrra bindinu er
hér dansaður línudans á mörkum tilfinningaseminnar en sögumönnum
fipast aldrei í þeim dansi.
Ísland og útlönd
Það þurfti útlendan lesanda og bókmenntáhugamann til að spyrja mig
spurningar um íslenskar skáldsögur sem ég hafði aldrei velt fyrir mér
af neinni alvöru: Eru íslenskir skáldsagnahöfundar mjög bundnir við
Ísland sem sögusvið? Ég er ekki frá því að svarið við þessari spurningu
hafi breyst nokkuð á allra síðustu árum. Þótt það sé auðvitað langt frá
því að vera algilt var sögusvið flestra íslenskra skáldsagna á 20. öld Ísland
í fortíð og nútíð. Það er vart fyrr en með bókum Thors Vilhjálmssonar
sem íslenskir skáldsagnahöfundar hætta sér til útlanda með persónur
sínar jafnvel þótt ófáir þeirra skrifuðu á erlendum málum. Ef við lítum
yfir skáldsögur síðustu ára er nokkuð annað uppi á teningnum og í fyrra
komu út býsna margar skáldsögur sem gera samband okkar við önnur
lönd og rætur íslenskrar sögu og sjálfsmyndar erlendis að umtalsefni.
Flóttinn eftir Sindra Freysson, frá árinu 2004, er breið og straumþung
skáldaga þar sem lýst er ævintýralegum flótta þýsks manns, Thomasar
Lang sem hraktist undan breska hernum frá Þingvöllum og vestur á
firði. Þar tókst honum að leynast með aðstoð fólks á Ísafirði og víðar um
norðanverða Vestfirði, einkum Þjóðverja sem búsettir voru fyrir vestan
og vinafólks þeirra. Í nýjustu skáldsögu sinni, Dóttur mæðra minna,
spinnur Sindri þennan þráð áfram. Flóttanum lauk með því að Thomas
var handsamaður og sagði til velgerðarmanna sinna. Afleiðingarnar
koma í ljós þegar á fyrstu síðum nýju bókarinnar. Kristín Eva Kröger,
aðalpersóna sögunnar og sögumaður, er sautján ára gömul stúlka á
Ísafirði, hún er stödd á balli í Alþýðuhúsinu þegar breski herinn gengur
á land í bænum. Það líða ekki margir dagar þar til hún er komin til
Englands sem fangi breska heimsveldisins og búið að loka hana inni í
Holloway kvennafangelsinu ásamt þýskri kjörmóður sinni, nágrönnum
frá Ísafirði og ótal öðrum konum sem margar hverjar hafa ekki annað
til saka unnið en að vera fæddar í Þýskalandi. Flestar eru þær saklausar
og aðalpersónan kannski saklausust allra.
Sagan lýsir langri fangelsisdvöl Kristínar Evu, móður hennar og
tveggja annarra kvenna frá Ísafirði. Þessa sögu segir hún sjálf, en jafn
framt því að segja sína eigin sögu rifjar hún upp sögu kynmóður sinnar,