Tímarit Máls og menningar - 01.11.2010, Blaðsíða 136
D ó m a r u m b æ k u r
136 TMM 2010 · 4
Matthías gerir sitt ýtrasta til að auka lesendum sínum skilning á þeirri tilfinn
ingu að verða gamall. „Höfuð mitt er kastali, byggður / úr tilhoggnum steinum
/ gamalla minninga“ segir í ljóðinu „Minningar“ (17). Ennþá betur orðar hann
sömu hugsun í upphafi ljóðsins „Til Hadesar heimkynnis““ (heitið er innan
tvöfaldra gæsalappa hér af því það er tilvitnun í Odysseifskviðu og innan
gæsalappa í bókinni):
Þegar við eldumst breytist hugurinn
í gamalt safn með mörgum herbergjum,
við göngum úr einu í annað
og skoðum það sem við skildum eftir
þegar allt var með öðrum brag
og einskis að sakna …
(142)
Um herbergi þessa gamla safns gengur Matthías í mörgum ljóðanna, minnist
fólks sem er horfið, föður síns, vina og kunningja, átrúnaðargoða, án þess þó
að þreyta lesandann á upptalningum. Af þessum ljóðum – sem frekar eru íhug
anir en dæmigerð erfiljóð – staldraði ég lengst við „Síðbúið samtal við Freud“
þar sem Matthías álasar Freud fyrir að vera of einfaldur, of vélrænn í hugsun.
Honum finnst vanta hið dularfulla í kenningar hans, „hið ókunna, óvissuna /
annan / heim, myndtákn guðanna, / vantar / reynslu nafnlausra kynslóða, /
óttann …“ Og hann lýkur ljóðinu á þessari óvæntu niðurstöðu (53):
nei, Freud
það vantar Lómagnúp í umhverfi þitt.
Endurminning um arfasátu
Og hér kemur að öðru meginerindi þessara ljóða, áminningunni um arfleifðina.
Matthías hefur verið óþreytandi í starfi sínu og ljóðagerð að hamra á því hvað
fortíðin skipti miklu máli í nútíð okkar. Kannski er eini tilgangurinn með tilvist
okkar Íslendinga að muna Njálu, ef ég hef skilið ljóðið „Brennumenn“ rétt (93):
Mig dreymdi um að taka dauðann í nefið
og drepa tímann um leið,
það var undarleg reynsla og engu líkara
en ég ætti heiminn um skeið.
En dauðinn lét sig það litlu varða
hvernig lífið flöktir við kveik,
því við erum aðeins endurminning
um arfasátu og reyk.