Tímarit Máls og menningar - 01.12.2017, Síða 35
R a u n s æ l í f s g l e ð i
TMM 2017 · 4 35
slíku og dregur fram hvernig náð og kærleikur Guðs raungerist í lífi og starfi
einstaklingsins fyrir trúna. Í krafti hennar getur maðurinn betur greint í
sköpuninni blessun Guðs og skikkan skaparans. Lúther grípur hér til tveggja
ríkja kenningarinnar. Samkvæmt henni lýtur ytri veruleiki mannsins hinu
veraldlega ríki sem nær til alls skapaðs veruleika og starfs mannsins innan
hans. Þar hvíla allir án undantekninga í hendi Guðs en vandi mannsins er sá
að hann kann ekki að meta það. Dæmi um slíkt er hve erfitt mönnum reynist
að njóta líðandi stundar og þess sem hann þó hefur, en leita frekar annað og
að öðru. Þessi árátta getur tekið á sig leiðinlegar myndir. Lúther talar hér um
það mein í samtíðinni að menn þrái í friði ófrið og þegar ófriðurinn sem þeir
vildu er kominn, er öðrum kennt um og sömu aðilar básúni nú um mikil-
vægi friðar.28 Hið sama eigi við um fagnaðarerindið. Í stað þess að íhuga það,
séu menn eins og kría á steini, hafi enga þolinmæði til að íhuga það og séu
strax farnir að leita að einhverju nýju eða nýrri lögmálsánauð. „Sá sem þarf
að þjóna hér í heimi með visku, réttlæti eða í krafti einhverra annarra gæða
[sem fagnaðarerindið vísar til, hann] uppsker oft vanþakklæti“ segir Lúther.29
Viskan sem Prédik arinn talar um felst í því að virða þann veruleika sem við
búum við og átta okkur á, að þrátt fyrir að í heiminum fái allir sömu laun,
þ.e. dauðann, þá veldur trúartraustið því að maðurinn skynjar blessun Guðs
mitt í veruleika sínum. Það sem skilur að góðan og illan er að vanþakklæti
heimsins hindrar manninn ekki í að sinna starfi sínu og njóta ávaxta þess.
Lúther segir: hér „fylgjum við okkar himneska föður sem lætur sól sína rísa
og lýsa jafnt fyrir réttláta sem rangláta.“30 Þannig á kennari ekki að hverfa frá
kennslu þó að einungis tveir nemendur sýni henni áhuga, hvað þá embættis-
maður frá vinnu sinni þótt aðeins tveir borgarar taki borgaralegar skyldur
sínar alvarlega.31 Og þó að veruleikinn virðist oft vera á valdi Satans, á það
ekki að hindra manninn í að sinna sínu og njóta þess sem lífið þó gefur hér
og nú. Þess vegna er „lifandi hundur betri en dautt ljón“ (v.4) segir Lúther og
vitnar í orð Prédik arans.
4. Lífsgleðin – carpe diem
Hvað á maðurinn þá að gera? spyr Prédik arinn og svarar: „Farðu því og et
brauð þitt með ánægju og drekktu vín þitt með glöðu hjarta því að Guð hefur
lengi haft velþóknun á verkum þínum. Klæði þín séu ætíð hvít og höfuð þitt
skorti aldrei ilmsmyrslin. Njóttu lífsins með konunni, sem þú elskar, alla daga
þíns fánýta lífs, sem hann hefur gefið þér undir sólinni, alla þína fánýtu daga
því að það er hlutdeild þín í lífinu og það sem þú færð fyrir strit þitt sem þú
streitist við undir sólinni“ (v.7–9).
Hér er áhugaverð þrískiptingin. Fyrst er það hversdagleikinn, þar ber
manninum að gæta þess að njóta síns daglega fæðis (þ.e. brauðs og víns).
Áhersla sem tekin er fyrir í fjórðu bæn Faðir vorsins „gef oss í dag vort dag-
legt brauð“ (Mt 6.11).32 Í annan stað á maðurinn að gera sér dagamun, klæða