Tímarit Máls og menningar - 01.12.2017, Qupperneq 111
Á l e i ð i s a ð U r ð a r s e l i
TMM 2017 · 4 111
öllum heiminum.“ Á sömu stundu er stúlkan illa búin og skelfingu lostin í
hrakningum af hans völdum. Eitthvað er að kvika í sál hans sem fær hann til
að leggja alla athygli sína að lömbunum. Eitthvað berst um þar inni, glímir
við sjálft sig og heldur sjálfu sér niðri eins og grátstaf. Gæti hörkutólið verið
að beina frá sér niðurbældu samviskubiti? Hér eru æpandi mótsetningar (H
2011:566–568).
Ef til vill nær andstæðuleikurinn hæst í 19. kafla í fyrsta hluta verksins
(H 2011:170–173) þegar segir frá lífgun barnsins nýfædda. Svipuðum tökum
tekur skáldið ýmis atvik í samskiptum þeirra Bjarts og Ástu síðar í verkinu.
Fyrirvaralausum orðum og athöfnum er slöngvað skýringarlaust í vit
lesanda. Hörð orð og köld fljúga yfir sjóðandi heitan veruleika, og átakið á
milli skilið eftir í huga lesandans. Eitthvað megnar það tungumál sem rúmar
slíkan merkingarburð og einhver er sú andagift sem slíku getur valdið.
En Bjartur viknar strax við fyrstu sýn og snertingu við nýfætt barnið. Hér
er leynihólf með loku í sál hans. Þegar hún tekur að vaxa og vita til sín lendir
hann í vanda og hugsar: „…– þetta litla blóm“ (H 2011:261). Löngu síðar, á
erfiðri stund, segir Bjartur um hana: „… og gerði það að lífsblóminu mínu í
fimtán ár …“ (H 2011:560). Þegar Guðný ráðskona, harðhent og harðyrt, spyr
hvaða nafn hann hyggst gefa barninu, svarar hann: „Ja ég skal taka að mér að
vera pabbi hennar uppá það, aumingjans, fallegu nafni skal hún heita … Hún
skal heita Ásta Sóllilja … – svo tölum við ekki meira um það“ (H 2011: 173).
Ásta Sóllilja er óvenjulegt nafn. Önfirsk kona, fædd 1892, bar þetta nafn
(Kjartan 1999:370; Torfi 2002:76). Hreppstjórinn undrast slíka nafngift (H
2011:250). Merking þess og hugblær eru gerólík viðmóti Guðbjarts Jóns-
sonar í Sumarhúsum. Smám saman kemur í ljós að hún opnaði leynihólfið
þegar hann sá hana fyrst hálfdauða undir lúsugri tíkinni uppi á skörinni (H
2011:156). Í leynihólfinu eru bæði ástúð og mannúð, samlíðun. Hér er allt í
æpandi andstæðum og mótsögnum. Orð skáldsins um skiptan svip í andliti
Ástu gefa hlaðnar vísbendingar.
Bjartur líkir Ástu við blóm. Þá sýn verður að ætla að hann hafi fengið af
ljóðalestri. Eitt sinn hrekkur blíðyrði upp úr Bjarti við Rósu og sýnir sömu
tengingu við nafn hennar (H 2011:133). Lilja kemur fyrir í kvenkenningum
rímna og í danskvæðum, og alkunn eru bæði Ólafur liljurós og Lilja Eysteins
munks, en ekki er óhugsandi að Bjartur eigi að hafa fengið þetta úr róman-
tískum ljóðum þrátt fyrir allt. Það er þá enn eitt dæmi um djarfar mót-
setningar og óvæntar skírskotanir í verkinu. Hugsanlega skírskotar skáldið
þá með nafninu til Ástu, eins fegursta ljóðs eftir sjálfan aðalgagnrýnanda
rímnanna Jónas Hallgrímsson. Í ljóðinu segir: „Veistu það, Ásta, að ástar
/ þig elur nú sólin?“ En í lesmálinu finnur lesandi eiginlega engar óvæntar
sveiflur, misfellur eða ósamræmi. Og þessi nöfn eru ekki fátækleg: Ásta Sól-
lilja, Rósa, Guðbjartur.
Konunafnið Ásta opnar hugrenningatengsl og blækveikjur. Blómið lilja er
alþekkt í táknmáli frá alda öðli víða um lönd. Táknun liljunnar fer nokkuð