Tímarit Máls og menningar - 01.12.2017, Page 116
J ó n S i g u r ð s s o n
116 TMM 2017 · 4
hugsa um aðra slíka þrjóska baráttujaxla sem aldrei vildu gefast upp? Ekki er
vafi að skáldið sér Bjart flækjast úr vondum stað í „annan verri“, en merkilegt
er þó að lýsingar í lesmálinu og orð gömlu konunnar styðja ekki að slíku mati.
Kann að vera að Halldóri sjálfum ofbjóði erfiðleikar Bjarts og finnist hann
verða að fá annað tækifæri? Er hugarfar Bjarts orðið skáldinu svo heillandi að
það fær ekki af sér að rjúfa sálarviðjar bóndans eða afneita baráttuhug hans?
Fann skáldið, þrátt fyrir allt, samhljóm innra með sjálfu sér?
Skáldverkið fær ekki vitsmunalega niðurstöðu, frekar en mannlegt líf yfir-
leitt. Hér verður áfram strit í þrákelkni frelsisins, óvinnanlegt stríð mannsins
við umhverfi sitt og sjálfan sig, endalaus barátta í skammsýni mennskunnar.
Náttúran og eðlið, landið og mannlífið, halda áfram eilífri hringrás árstíða
og örlaga, leitar og viðleitni mannsins. Enn ráða blendni og margfeldni för í
ófyrirsjáanlegri rás andstæðna og mótsetninga. Baráttan sjálf virðist mikil-
vægari en eitthvert skýrt sigurmark. Greinilegt er að skáldið vill ítreka í lokin
að baráttunni er engan veginn lokið; hún er enn framundan og heldur áfram.
Enn er hér kveikt bál í hugarfylgsnum lesandans og hann knúinn til leitar að
eigin svörum – og til samlíðunar.
XVIII
Sjálfstætt fólk fjallar vissulega um samfélagsmál og um hugsjónir sem skíð-
loguðu í hugskoti höfundarins á ritunartímanum, glæddar stormum sinna
tíða. Vitaskuld er það virðingarvert að gera uppreisn gegn frumstæðishyggju,
upphafningu fátæktar og blindri afturhvarfsþrá. En verkið fjallar ekki síður
um einkamál, fjölskyldutengsl, skapólgu, skapbresti, bráðræði, mistök, átök,
tilfinningar, ástúð og ást. Og það gildir einu hve ákaflega Halldóri svellur
móður í boðun sinni, að Bjartur er óstýrilátur og hlýðir höfundi sínum ekki,
ekki frekar en öðrum. Hann samþykkir ekki nýja tíma höfundarins og hann
heldur áfram og gefst ekki upp. Baráttan er eilíf, hið ytra sem hið innra. Mót-
sagnaleikurinn heldur áfram, líka í því að veikindi Ástu eru ekki úr fásinni
sveitarinnar heldur einmitt úr þorpinu sem annars táknar nýja tíma.
Bent hefur verið á áhrif af styttu Einars Jónssonar, Útilegumanninum, á
sögulok Sjálfstæðs fólks (Gunnar 2002:77; Halldór 2004:365–366; Hannes
2004:108). Vésteinn Ólason nefnir hina „sálfræðilegu dýpt og blæbrigði“ í
verkinu (Vésteinn 1983:18). Hann segir: Bjartur „lætur stjórnast af mann-
legustu tilfinningum sínum þegar hann sættist við Ástu“ (Vésteinn 1977;
2008:45). Bjartur setur stefnu að öðru heiðakoti í fjölskyldunni og nær sáttum
við sjálfan sig með því að taka Ástu í sátt. Í því eru ný hvörf í verkinu, dýr-
mætur sigur á þroskabraut hans sjálfs.
Morgunn rennur upp yfir fátæklega klædda smástelpu sem dundar sér
úti við, dóttir Ástu og heitir auðvitað Björt. Frásagnarháttur skáldsins hefur
aðkenningu af kvikmynd. Þegar Bjartur eltir hana inn til Ástu er þessari
mynd brugðið upp: „En þegar hún sá Bjart koma á eftir, þá fóru augu hennar