Studia Islandica - 01.06.1981, Blaðsíða 66
64
sögunnar sem þegin eru úr bókum og grafast síðan fyrir
um arfsagnir, ef nokkrar eru, og geta þó niðurstöður af
slíkum rannsóknum aldrei orðið meira en rökstuddar til-
gátm-. Þeir sem vilja beita munnmælafræði við könnun
á uppruna og efnivið Islendingasagna takast á hendur
tvenns konar viðfangsefni. Annars vegar að einangra þau
atriði sem kunna að vera lýsingar á raunverulegum at-
burðum á söguöld, og verða þá Landnáma og aðrar frá-
sagnir stundum til leiðbeiningar, og hins vegar að skýr-
greina þau einkenni sem heyra alþýðlegri frásagnarhst til.
Um fyrra atriðið er það skemmst að segja að mönnum hef-
ur reynzt mjög örðugt að færa viðhlítandi rök fyrir munn-
legum heimildum um atburði Hrafnkels sögu, enda er
margt af því sem gerist þar svo lítilvægt í sögulegum skiln-
ingi að það hefur naumast getað varðveitzt í munnmælum
um þriggja alda bil. Þó er engan veginn óhugsandi að
höfundur hafi þekkt einhver munnmæh um einstaka at-
vik, svo sem smalavíg austur í Hrafnkelsdal. Þó ber hvorki
lýsingin á þessum atburði né aðdragandi hans og slóði
neitt með sér sem bendi til arfsagna. Um frásagnarmynzt-
ur Hrafnkels sögu má staðhæfa, að hvergi annars staðar
í íslenzkum fomsögum er ferli ójafnaðarmanns lýst eins
og þar, og þó er hér um að ræða nokkuð algenga mann-
gerð í sögum. Samkvæmt venjulegum frásagnarhætti hefði
Hrafnkell hvorki iðrazt glæpsins né gert Þorbirni virktar-
boð, heldur hefði hann móðgað gamla mannitm og fallið
siðar fyrir vopnum hans. Þótt sagan sé þannig að þessu
leyti ólík öðrum sögum af ójafnaðarmönnum, þá væri
misskilningur að draga þá ályktun að honum hafi verið
þær ókunnar, heldur þykir mér líklegra að hér sé um að
ræða frávik af ásettu ráði. Hér er á ferðinni höfundur
sem þiggur efni úr lærðum bókmn og e.t.v. einnig af al-
þýðuvörum og skapar úr þvi listaverk sem á ekki sinn líka
í íslenzkum bókmenntmn að fornu og nýju.