Saga - 2021, Page 228
ans og eins konar forkaupsrétt á því sem umfram fiskaðist. Þetta fyrirkomu-
lag var ekki síst þekkt á Suðurnesjum.
Þetta eru þó smávægilegar athugasemdir og aðfinnslur. Að minni hyggju
er góður fengur að þessu riti Barts Holterman. Það er á allan hátt vandað,
byggt á traustri rannsókn fjölmargra heimilda og gott framlag til sögu fisk-
verslunar við norðanvert Norður-Atlantshaf á miðöldum.
Jón Þ. Þór
L. K. Bertram, THE VIKING IMMIGRANTS: ICELANDIC NORTH
AMERICANS. University of Toronto Press. Toronto 2020. 245 bls.
Mynda skrá, atriðisorða- og nafnaskrá, heimildir, viðauki.
The Viking Immigrants: Icelandic North Americans er afrakstur áralangra rann-
sókna kanadíska sagnfræðingsins Laurie K. Bertram á menningu og sjálfs-
myndum íslenskra vesturfara og afkomenda þeirra. Verkinu hefur verið vel
tekið og höfundur hlaut meðal annars hin svokölluðu Clio-verðlaun (e. Clio
Awards) í flokki svæðis- eða héraðssögu (e. regional history) en þau eru veitt
af félagi kanadískra sagnfræðinga, Canadian Historical Association /
Société historique du Canada. Auk inngangs og lokaorða samanstendur
bókin af fimm meginköflum. Umfjöllunarefni þeirra eru 1) klæðnaður, 2)
drykkjumenning, bæði kaffi- og áfengisdrykkja, 3) hjátrú og draugasögur,
4) beiting víkingaímynda og loks 5) tilvist og hugmyndaheimur vínartert-
unnar. Að auki birtir höfundur viðauka þar sem finna má sex mismunandi
uppskriftir að vínartertu. Nálgun á efnið er að flestu leyti frumleg saman-
borið við margar aðrar rannsóknir á íslenskum vesturförum, sem gjarnan
taka á pólitískum hugmyndum, samskiptum þeirra við gamla heimalandið,
tungumáli og bókmenntum svo fátt eitt sé nefnt.
Á köflum er ekki ljóst hvort verkinu sé ætlað að vera strangfræðilegt eða
skrifað fyrir almenna lesendur og í raun siglir það bil beggja. Verkið
uppfyllir fræðilegar kröfur um vinnubrögð og nákvæmni en um leið er text-
inn mjög aðgengilegur fyrir lesendur. Afar lítið er fjallað um aðferðafræði
eða meginhugtök rannsóknarinnar sem virðast vera þriðja rýmið (e. third
space), þjóðvangur eða etnísk vídd (e. ethnoscapes) og kyngervi (e. gender).
Þess í stað er í inngangi þulin frekar almenn og gamalgróin söguskoðun um
ástæður vesturferða og nýlendustofnun Nýja-Íslands við Winnipeg-vatn en
einnig er fjallað um markmið bókarinnar sem meðal annars eru að bregða
birtu á „the unseen qualities“ meðal innflytjendanna eins og höfundur
kemst að orði, þ.e. venjur og hversdagsmenningu (5). Eftir því sem líður á
lesturinn kemur í ljós að umfjöllunin beinist einkum að íslenska samfélaginu
í Manitoba. Þetta er skiljanlegt þar sem langflestir innflytjendanna settust
ritdómar226