Árbók Landsbókasafns Íslands - 01.01.1952, Blaðsíða 179
SÍRA JÓN MATTHÍASSON SÆNSKI
179
hefur það fyrst og fremst vakað fyrir herra Jóni að vera ekki eftirbátur starfsbræðra
sinna á Norðurlöndum urn það, að koma út helgisiðabókum fyrir biskupsdæmi sitt, og
sést það ljóslega á því, að hann lét einmitt prenta eina helgisiðabók. Hitt hefur þó að
líkindum líka vakað fyrir honum að nota þessa prentsmiðju í trúarbragðaátökum
þeim, sem fyrirsjáanlega voru framundan. Síra Sigurður réði hingað í því skyni Jón
nokkurn Matthíasson (Mattheusson), sem talið er að hafi verið sænskur; var hann því
hérlendis kallaður Jón sænski, og er engin ástæða til þess að efa, að rétt sé þar sagt til
um þjóðerni hans. Til þess að forðast misskilning um það, hvaðan Jón sænski hafi
verið ættaður, verður að taka það fram, að héruðin Skánn, Halland og Bleking, sem
nú hafa lotið undir Svíþjóð síðan friðurinn í Hróarskeldu var samin 1658 og hafa
alltaf landfræðilega tilheyrt Svíþjóð, lágu þá undir Danmörku og höfðu legið frá
ómunatíð; voru því og landsmenn þar taldir Danir um þessar mundir, og mundi eng-
um þá hafa dottið í hug að kalla þá Svía eins og nú er gert; hafi síra Jón því verið
sænskur, getur hann ekki hafa verið ættaður úr þessum héruðum. Sumir hafa getið
þess til, að Jón Matthíasson hafi flúið heimaland sitt Sviþjóð af fastheldni við hinn
kaþólska sið.8 Lútherstrú hafði verið lögleidd í Svíþjóð 1527, en ekki er þó sögnin um
Jón Matthíasson ýkja líkleg, því að eftir siðaskiptin hér hélt hann áfram prests-
störfum, eins og ekkert hefði í skorizt, enda er heimildin fyrir þessu ekki nema ein
og ung. Það verður að gera ráð fyrir því, að síra Sigurður hafi komizt í samband við
Jón Matthíasson í Danmörku, frekar en Þýzkalandi, því að síra Sigurður fór til Nor-
egs um bæði þessi lönd. Um 1527 hafði mönnum í Málmhaugum, sem þá var í Dan-
mörku, þótt sig vanhaga um prentsmiðju í baráttunni fyrir siðabreytingunni,9 en
Málmhaugar voru um þessar mundir helzta virki danskra siðabyltingarmanna. Utveg-
uðu þeir sér því sænskan prentara, Oluf Ulriksön, er áður hafði haft prentsmiðju sína
í Söderköping í Svíþjóð.10 Fluttist hann með prentverk sitt til Málmhauga, var þar
alllengi prentari og hefur prentað ýmis merkustu rit danskra siðabyltingarmanna.
Prentun var auðvitað ekki frekar þá en nú eins manns verk, og voru prentsmiðjur á
þeim dögum beinlínis miklu mannfrekari en nú er, vegna þess hvað tækin voru einföld
og óhentug, enda voru þær einnig harla seinvirkar, ekki sízt vegna þess, að prentararnir
voru ekki alltaf faglærðir. Hugsazt gæti, að Jón sænski hefði verið sveinn í prentsmiðju
Olufs Ulricksöns og flutzt með honum frá Svíþjóð til Danmerkur, en viljað gerast
sjálfstæður prentari, tekizt að ná saman stílum, pressu og nauðsynlegustu prenttækjum
og síðan samið við síra Sigurð um að fara til íslands með prentsmiðju sína. Hitt væri
einnig hugsanlegt, að hann hefði um skeið verið farandprentari en á lausum kili.
Hafi síra Sigurður því getað fengið hann til íslandsferðar, og virðist þetta sennilegast.
En sé þetta svona, verða engar líkur að því leiddar, hvort síra Sigurður hafi komizt
í samband við Jón í Danmörku eða á Þýzkalandi. Hefur Jón farið til Islands með
síra Sigurði sumarið eða haustið 1535, því að getið er hans hér í fyrsta skipti í gerningi
17. október það ár,11 og eftir það kemur hann nokkrum sinnum fyrir í skjölum fram
að siðaskiptum.12 Enda þótt það væri vitanlega ekki ómögulegt, er það að minnsta
kosti mjög ólíklegt, að Jón hefði ekki kornið fyrr við skjöl, ef hann hefði verið hér