Réttur - 01.01.1958, Blaðsíða 2
2
R É T T U B
félagið í heild — kann þjóðfélagslega að hagnýta þetta vald sér
til hlessunar — eða hvort hann tortímir sjálfum sér með því.
Spurningin er sem sé um það, hvort feigu auðvaldi tekst að
tortíma mannkyninu með vetnissprengjum eða hvort mannfé-
lagið sjálft hagnýtir undraorku atomkjarnanna til þess að koma
á þjóðskipulagi allsnægtanna á jörðinni. Marxisminn einn gefur
úrslitasvarið við þeirri spurningu: Einungis sameign allra manna
á þessum undratækjum tryggir notkun þeirra í þágu allra, en
meðan einstakir auðhringar eiga þau og diottna yfir þeim, hangir
drottinvald gróðahringanna sem Damóklesarsverð í veikri taug
yfir höfði mannkynsins.
Marxisminn gefur því öllum öðrum vísindum þann tilgang, sem
þau þurfa að öðlast, ef þau eiga ekki að eiga þátt í því að gera
manninn að leiksoppi annarlegra afla eða valda því, að hann
fari sér að voða.
En marxisminn er ekki aðeins öðrum vísindum æðri af því hann
skipar manninum og mannfélagi hans í hinn æðsta sess, veitir
manninum lykilinn að því leyndarmáli, hvernig hann skuli skapa
samfélag sitt svo, að hver sé sinnar gæfu smiður, en ekki leik-
soppur yfirstéttar eða óþekktra þjóðfélagsafla. Marxisminn er og
öðrum vísindum frábrugðinn í því, að hann er ekki og á ekki að
vera séreign einstakra vísindamanna, heldur sameign fjöldans,
vopn allra vinnandi stétta jarðarinnar í frelsisbaráttu þeirra, í
leit þeirra að lífsgæfu og sannleik. Og af því marxisminn skír-
skotar til hvers einasta vinnandi manns, til alþýðunnar í öllum
löndum undir kjörorðinu: Lýður bíð ei lausnarans, leys þið sjálfur,
— þá er hann nú útbreiddasta kenning nútímans, máttugasta
stefna, sem nokkru sinni hefur verið til á jarðríki, voldugastur,
ekki í krafti þess vopnavalds, sem verkalýður og bændur nú ráða
yfir sem ríkjandi stéttir, þótt það sé mikið, — heldur voldugastur
í krafti þeirrar ósigrandi hugsjónar, sem samrunnin er hagsmunum
alþýðustétta heimsins. Marxisminn hefur verið ofsóttur af meira
grimmdaræði en beitt var nokkru sinni af rómverskri yfirstétt við
kristna píslarvotta, en jafn árangurslaust. Auðvaldið hefur beitt
allri ógn fasismans til þess að reyna að útrýma honum, en hann
hefur risið upp sterkari á eftir en nokkru sinni fyrr. Hin voldugustu