Andvari - 01.01.1992, Side 138
136
EYJÓLFUR KOLBEINS
ANDVARI
Samtöl gríska textans eru oftast ort undir jambískum sexliðahætti sí-
kveðnum.20 Þeim snarar hann á sama hátt á íslensku. Kórljóð þýðir hann
undir ýmsum háttum, stuðluðum og rímuðum að íslenskum vanda. Það lýt-
ir ögn þýðinguna að ljóðlínur jambíska háttarins hefjast afar oft á tvíkvæð-
um og þríkvæðum orðum svo fyrsti bragliður verður réttur tvíliður en sá
næsti öfugur (-<^,vj-) svo hljómfallið víxlast úr hnígandi í rísandi hrynj-
andi. Þríliður inni í ljóðlínu er óþægilega algengur. Stundum fellur
óeðlileg áhersla á forsetningar, og ekki er örgrannt um að aðaláhersla falli
á annað atkvæði fleirkvæðra orða. Hrynjandin verður því hastari en ella.
Þýðandinn reynir að bæta úr þessu með fjölmörgum úrfellingum sérhljóða í
endi orða, en þær verða fleiri en svo að vel fari. Raunar eru misfellurnar
skiljanlegar ef þess er gætt að fáir íslendingar munu hafa spreytt sig á hætt-
inum á undan Sigfúsi og Grími. Orðalag og orðaforði sem honum hæfði lá
því ekki á lausu.
Yfirleitt er merkingin skýr og auðskilin. Þýðingin verður jafnframt skýr-
ing.21 Það hefir þann ókost að ekkert er látið ósagt og textann skortir oft og
einatt þá spennu milli forms og innihalds sem einkennir góðan skáldskap.
Orðaval er stundum miður hnitmiðað svo jaðrar við stílrof. Samt er hún
fyrir margra hluta sakir lofsverð og læsileg. Hún kemur efni frumtextans
vel og skýrt til skila, og þrátt fyrir þá ágalla sem drepið var á, eru í henni
góðir sprettir, og ómaklegt að fyrsta útgefna íslenska þýðingin á heilum
grískum harmleik falli með öllu í gleymsku. Hún er frumraun á þessu sviði
og því á brattann að sækja.
í ritdóminum í Sunnanfara hrósaði Sigfús þýðingu Gríms á „Kórsaung
hertekinna kvenna“ úr „Ífígeníu í Táris“ eftir Evrípídes. Ári síðar en
Bakkynjurnar komu út birti Sigfús eigin íslenskun sama ljóðs í Eimreið-
inni.22 Hún er prentuð með lítilsháttar lagfæringum ásamt öðru kórljóði:
„Kórsöng varðmanna í Trójuborg úr sorgleiknum „Rhesos“ eftir Euripides
(v. 527 og áfr.)“ og nokkrum grískum kvæðaþýðingum að auki í kvæðabók
hans sem út kom í Reykjavík 1949.23
Nú var þess skammt að bíða að kaflaskipti yrðu í sögu þýðinganna. Árið
1961 kom út fyrsta þýðing dr. Jóns Gíslasonar á grísku leikriti. Antígona
eftir Sófokles varð fyrir valinu, en síðan rak hver þýðingin aðra. Þýðingar
dr. Jóns eru allar í óbundnu máli, og málfarið hátíðlegt og upphafið eins og
efninu sæmir. Agamemnon eftir Aiskýlos birtist 1967, Oresteian öll 1971,24
Persar Aiskýlosar 1972, Þrjú leikrit um ástir og hjónaband eftir Evrípídes
1974,25 Þebuleikirnir eftir Sófokles 1978,26 og loks Þrír leikir um hetjur eftir
Aiskýlos 1981.27 Dr. Jón hefir því þýtt 12 þeirra 32 leikrita sem venjulega
eru talin til grísku harmleikjanna28 og eignuð höfundunum þrem. Þýðing-
um hans fylgja ýtarlegir formálar og skýringar lesendum til skilningsauka.