Andvari - 01.01.1994, Page 12
10
GUNNAR STEFÁNSSON
ANDVARI
arð og tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Auðlegð íslendinga hefur
jafnan sprottið af góðum sjávarafla og hækkandi verði á fiski á heimsmark-
aði. Hér hafa oft verið bitur átök um kaupgjald á lýðveldistímanum, og má
auðveldlega rekja þau til misræmisins milli kröfunnar um skandinavísk lífs-
kjör og mistaka íslendinga að starfrækja iðnað með skandinavískri fram-
leiðni. Sáttin sem tókst um launin um 1990 fólst í því að almenningur sætti
sig við lágu launin, miðað við Skandinavíu, en vinnur muninn upp með
lengri vinnutíma, stöðugri og mikilli yfirvinnu. Þessi lausn er ekki auðveld
eða góð. Hún setur íslenskt samfélag í spennu sem bitnar á miklum meiri-
hluta heimila í landinu. Hún kemur líklega verst niður á uppeldi barna og
miklu verr vegna þess að opinbert skólakerfi hefur verið vanrækt líka. Og
sé það rétt, að við séum að afla okkur neyslufjár á kostnað barna okkar, þá
er það miklu dýrari skuldasöfnun en sú sem mæld er í krónum og dollur-
um.“
Þetta eru vissulega íhugunarverð orð. Getur þessi fámenna verstöð í Atl-
antshafi boðið lífskjör sem jafnist á við það sem grónar iðnaðarþjóðir í
Skandinavíu njóta, og haldið samt sjálfstæði sínu? Getum við haldið áfram
að byggja þetta stóra land allt með þeim tilkostnaði sem af því leiðir? Ólán
Færeyinga má verða okkur víti til varnaðar. Þeim varð um megn að halda
uppi „skandinavískum“ lífskjörum, sem Danir sáu þeim reyndar fyrir, og
misstu stjórn á málum sínum svo að þjóðargjaldþrot blasir við. Kannski er
lausnin fyrir okkur, eins og Færeyinga, fólgin í nýrri hugsun sem veltir hag-
vaxtargoðinu af stalli og leggur rækt við önnur verðmæti. Grannar vorir
Grænlendingar voru rifnir upp úr jarðvegi sínum í hagkvæmnisnafni og
smalað saman í nokkra þéttbýlisstaði. Sú röskun hefur orðið þeim dýr-
keypt.
Við höfum gengið á auðlindir sjávarins og vegna þess að við þurfum að
reka dýr veiðitæki hafa íslenskir útgerðarmenn ekki vílað fyrir sér að spilla
áliti þjóðarinnar sem forustuþjóðar í landhelgismálum. Þá börðumst við
fyrir rétti strandríkja og unnum sigur. Nú er snúið við blaðinu, sótt í Smug-
una og á miðin við Svalbarða með hæpnum rétti úthafsveiðiþjóða sem við
áður andæfðum á heimamiðum. Þjóðrembingurinn bannar mönnum að
horfast í augu við þetta og þótt fiskifræðingar bendi á tvískinnunginn og
tækifærisstefnuna hirðum við aldrei um slíkt!
Skáld nítjándu aldar ortu ástarjátningar til ættjarðarinnar. Við sem nú lif-
um unnum landi okkar ekki síður en fyrri tíðar menn þótt hátíðleg tignun
þess sé nútímafólki ekki eins töm. Innilegt samlíf með landinu í blíðu og
stríðu hefur komið í þess stað. Það er túlkað í ættjarðarljóðum nútímans.
Umhverfisvernd er tímans krafa og við íslendingar höfum loks brugðist við