Andvari - 01.01.1994, Síða 13
andvari
FRÁ RITSTJÓRA
11
henni á síðustu árum, meðal annars með stofnun sérstaks umhverfisráðu-
neytis sem þegar hefur veruleg áhrif.
Land, þjóð og tunga er enn sem fyrr hin heilaga þrenning íslendinga.
Mold ættlandsins geymir bein forfeðra og formæðra, sagan af lífsstríði
þeirra er þáttur í sjálfsvitund okkar allra og tungu þeirra tölum við enn. Á
fimmtugsafmæli lýðveldisins minnumst við með virðingu þeirra sem á und-
an okkur fóru og horfum vonglöð fram á veginn, sjálfstæð þjóð í fögru
landi. Eitt af lýðveldisbörnunum, skáldið og sagnfræðingurinn Pórunn
Valdimarsdóttir, hefur kveðið Ættjarðarþulu sem lýsir með sínum hætti
þessari kennd. Þórunn ávarpar ísafold, „móðurmassa“ sem menn hafa
skynjað og notið í meira en ellefu hundruð ár, sem bar á brjóstum og bless-
aði menn og dýr. Skáldið setur sér sögu fósturjarðarinnar fyrir sjónir.
Ljóðinu lýkur svo:
Eg vil snúa hringekjunni við,
ganga í sali þína og sjá
stórmynd með tali, tóni, lykt og lit,
Gissur í kerinu, börn hans brennd,
hversdagssvip Ara, nunnur við skriftir
og allt heila baslið við að halda lífi.
Ég vil ganga á þér, liggja á þér,
í tunglskini, sólskini og rigningu.
Ég vil vera lengi hinum megin á hnettinum
og hugsa til þín þaðan.
Ég vil sækja til þín kraft.
Ég vil finna þig toga í mig
þegar ég er þreytt.
Ég vil fara ofan í þig og verða þú.
í þessum einföldu orðum felst tilfinning okkar gagnvart ættjörðinni, við er-
um hluti af henni og hún af okkur. Landið talar til okkar, veitir kraft og
hugfró, aðhald og áminningu. Vonandi berum við gæfu til að svara ákalli
Islands á þann veg að ekki þurfi að leika neinn vafi á því á nýrri öld hvort
tilraunin sem hófst 1944 hafi tekist.
Gunnar Stefánsson