Andvari - 01.01.1994, Síða 60
58
DAVÍÐ ODDSSON
ANDVARI
dauða á hálfu öðru ári. Hann barðist hetjulegri baráttu við þennan
kvalafulla og vægðarlausa sjúkdóm, uns yfir lauk, og mælti aldrei
æðruorð til vina sinna og viðmælenda. Sýndi hann þar vel, hvílíkan
skapstyrk hann hafði til að bera. Hefur það eflaust hjálpað honum í
þessu mikla mótlæti, að hann var einlægur trúmaður. Þórir Kr. Þórð-
arson guðfræðiprófessor segir frá því, að hann hafi eitt sinn verið
staddur með Geir Hallgrímssyni í samkvæmi, þar sem borist hafði í
tal nýlegt dauðsfall. Þórir sagði um hinn látna: „Það kom í ljós, að
kristin trú er það eina sem dugar í dauðanum.“ Geir hvessti á Þóri
sjónir: „Já, og í lífinu,“ sagði hann og lagði þunga áherslu á hvert
orð. Geir Hallgrímsson var óbugaður til æviloka. Hann lést 1. sept-
ember 1990.
XVIII
Geir Hallgrímsson var rúmlega meðalmaður á hæð, en bar sig vel og
var með afbrigðum höfðinglegur á velli. Hann var fríður maður sýn-
um og vel á sig kominn, hafði mikið og voldugt arnarnef, festulegan
munnsvip og stór og góðleg augu. Hann sýndi lítil svipbrigði á
mannamótum, og agaði svo skap sitt að reiði sá sárasjaldan á honum.
Þó var hann mjög vandur að virðingu sinni og tók óstinnt upp, ef
andstæðingar brugðu honum um óheiðarleika, en það gerðist að vísu
sjaldan. Hann var prýðilegur og rökfastur ræðumaður, en átti til að
verja fulldrjúgum tíma í tölur og staðreyndir. Hann var hins vegar
ætíð málefnalegur og háttvís sem ræðumaður. Raunar var Geir Hall-
grímsson einhver kurteisasti maður, sem ég hef kynnst. Um hann má
hafa hendingar Bjarna Thorarensens:
Kurteisin kom að innan,
sú kurteisin sanna,
siðdekri öllu æðri,
af öðrum sem lærist.
En hvað einkenndi helst stjórnmálamanninn Geir Hallgrímsson?
Til að svara gríp ég ósjálfrátt til sömu orða og einn helsti samstarfs-
maður hans í mörg ár, Auður Auðuns, notaði í minningargrein um
hann: Heilindi, gætni og framkvæmdahugur.