Andvari - 01.01.1994, Page 62
60
DAVÍÐ ODDSSON
ANDVARI
menn hann kunni best að meta, það voru þeir þrír formenn Sjálf-
stæðisflokksins, sem hann hafði kynnst, Ólafur Thors, Bjarni Bene-
diktsson og Jóhann Hafstein. Sá erlendi stjórnmálamaður samtím-
ans, sem honum fannst mest til um, var Golda Meir,
utanríkisráðherra og síðar forsætisráðherra ísraels. Sagði Geir með
bros á vör, að Golda Meir hefði verið ófríðasta kona, sem hann hefði
hitt á allri sinni ævi, en um leið ein sú geðfelldasta. En merkasta
stjórnmálamann aldarinnar taldi Geir Winston Churchill, sem hann
hefði haldið svo eindregið upp á ungur drengur, er hann varði mál-
stað bandamanna gegn skólabræðrum sínum þýsksinnuðum.
Geir Hallgrímsson var vinmargur maður og vinsæll. I vinahópi var
Geir hrókur alls fagnaðar, og þar naut skopskyn hans sín vel og
græskulaust gaman. Hann fylgdist jafnan með sínu gamla íþróttafé-
lagi, Víkingi, af áhuga og góðvild. Geir starfaði lengi í Rotary-klúbbi
Reykjavíkur, og minnast félagar hans þaðan hans sem góðs og glað-
lynds félaga.
Best leið Geir Hallgrímssyni þó í skauti fjölskyldu sinnar. Hann
var mjög heimakær maður og frændrækinn. Mjög var gott með hon-
um og systkinum hans, þeim Birni og Ingileif. Kona Geirs, Erna
Finnsdóttir, stóð sem klettur við hlið hans í blíðu og stríðu; þau voru
gestrisin heim að sækja, en án alls yfirlætis. Heimilið var athvarf
Geirs og skjól. Elsta barn þeirra Geirs og Ernu er Hallgrímur, lög-
fræðingur og stjórnarformaður Arvakurs hf., fæddur árið 1949 í
Bandaríkjunum. Hann er kvæntur Aðalbjörgu Jakobsdóttur félags-
fræðingi, og eiga þau eina dóttur. Næstelst er Kristín, sem fædd er
1951. Hún er bókasafnsfræðingur og gift dr. Frey Þórarinssyni jarð-
eðlisfræðingi, og eiga þau tvo syni. Þriðji í röðinni er Finnur, sem
fæddur er 1953. Hann lauk doktorsprófi í hagfræði, en er nú forstjóri
sælgætisgerðarinnar Nóa-Síríusar. Sambýliskona hans er Steinunn
Þorvaldsdóttir, og eiga þau tvo syni. Yngst er Áslaug, fædd 1955, en
hún lauk doktorsprófi í jarðfræði. Öll eru börn þeirra Geirs og Ernu
hin mannvænlegustu, eins og þau eiga ætt til.
Með Geir Hallgrímssyni gekk góður drengur, frelsisvinur, og um-
fram allt heilsteyptur stjórnmálamaður. Hann gekk út í lífið eftir
menntaskólaárin á lýðveldisdaginn 1944. Hann helgaði frjálslyndri og
víðsýnni stefnu krafta sína. Hann féll frá 1. september 1990 og náði
því að sjá múrana í kringum kennisetningarnar, sem hann hafði
mesta andúð á, hrynja til grunna.