Andvari - 01.01.1994, Síða 72
70
KRISTJÁN KRISTJÁNSSON
ANDVARI
hvert við annað: Okkur beri að sleppa fleiri bíóferðum og heimsækja oftar
afræktar frænkur á elliheimilum.
Ég er, sem leikslokasinni, á því að erfitt sé að skilja glöggt á milli fag-
legra og félagslegra skyldna háskólakennara eða raða þeim í fyrirfram
gefna áhersluröð, enda séu þær allar leiddar af hinni almennu farsældar-
skyldu, er svo mætti nefna. Sú skylda hlýtur raunar að teljast „félagsleg“ í
víðustu merkingu þess orðs; og ef til vill mætti færa rök að því að engin
sjálfstæð fagleg úrlausnarefni séu til sem ekki hafi upphaflega skotið upp
kolli í viðleitninni að skapa farsælla mannlíf þótt þau hafi síðan tekið að
þróast á eigin forsendum; eignast sjálfstætt líf.2() Hvað sem því líður er að
minnsta kosti víst að margir kennarar hafa, að bestu manna yfirsýn, sinnt
félagslegum skyldum sínum (í hinni þrengri merkingu) með fullum sóma;
og ég fæ ekki séð að sérstök rök mæli gegn því að fleiri ættu að geta fetað í
fótspor þeirra. Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði, er sama sinnis. í
greinasafni hans, Hagkvœmni og réttlæti, er sérstakur kafli um skyldur
fræðimanna, um ábyrgð þeirra gagnvart almenningi. Þorvaldur staðhæfir
að vísu fremur en rökstyður að þeir hafi slíkum skyldum að gegna; bendir
þó á að vart hefðu jafnmargir hneigst að villukenningum kommúnista um
efnahagsmál, svo að dæmi sé tekið, ef hagfræðingar hefðu lagt meiri rækt
við fyrirbyggjandi almannafræðslu.21
Þorvaldur ýjar hér að dæmigerðum leikslokarökum sem ég vildi mega
herða ögn á. Er ekki háskólakennari að sumu leyti eins og bifvélavirki sem
sér að nágranni hans er að fikta við bílinn sinn af ótæpilegri vankunnáttu
og á þar með á hættu að slasa sig? Er ekki skylda bifvélavirkjans að hrópa
varnaðarorð yfir lóðamörkin? Ekki veldur sá sem varar. Þarna er um
nokkuð augljósa siðferðisskyldu að ræða og ekki verður annað séð en að
háskólakennara beri jafnbrýn skylda og bifvélavirkja til að koma á fram-
færi við fólk þekkingu sem hann býr yfir og getur, eins og í dæmi Þorvalds,
forðað því frá stórslysum. Einhver kynni að malda í móinn og segja að há-
skólakennarinn hafi slíka skyldu þá einvörðungu sem maður en ekki sem
kennari. Því mætti hins vegar svara til að bifvélavirkjanum í dæminu hafi
ekki getað borið „mannleg“ skylda til að vara nágranna sinn við nema
vegna þess að hann var bifvélavirki og hafði þá þekkingu til að bera sem
nauðsynleg var. Á sama hátt verði ekki skilið á milli hlutverks eða eðlis há-
skólakennarans sem kennara og manns; hann sé hvort tveggja í senn, geti
ekki borið kápuna á annarri öxlinni í einu. Ég er það stórlátur fyrir hönd
okkar háskólakennara að telja að við höfum flestir yfir að ráða einhverri
þekkingu til slysavarna af því tagi sem Þorvaldur tók dæmi af. En þekking-
armiðlunin, alþýðufræðslan, verður þá að eiga sér stað á vettvangi sem al-
menningur á aðgang að og á máli sem hann skilur. Vart sakar svo heldur að