Andvari - 01.01.1994, Síða 137
ANDVARI
FRÁ FRUMSTÆÐU BÆNDAVELDI TIL FJÖLPÆTTS NÚTÍMASKIPULAGS
135
vel saman í einum flokki seint á tuttugustu öld, svo að eitt dæmi sé nefnt.
Aðalatriðið er, að skilningur okkar á þróun þjóðlífsins síðustu eitt hundrað
árin glæðist við að líta á hana augum Guðmundar Hálfdanarsonar, sem
togstreitu hins gamla bændaveldis og hins nýja útgerðarskipulags, sjálfs-
þurftarbúskapar og markaðskerfis, strjálbýlis og þéttbýlis, bændastéttar
annars vegar og verkamanna, sjómanna og útgerðarmanna hins vegar.
Báðar ritgerðir Stefáns Ólafssonar í þessu verki eru fróðlegar og fram-
bærilegar. Önnur er um kenningar félagsvísindamanna um umskiptin á
Vesturlöndum, þegar nútíminn gekk í garð. Þar reifar Stefán stuttlega hug-
myndir Adams Smiths, Karls Marx, Tocquevilles, Herberts Spencers,
Durkheims og fleiri hugsuða. Stefán gerir þó furðu litla grein fyrir einu
mesta framlagi Smiths til skilnings á nútímanum: Þegar komið er út úr
grenndarskipulaginu, þar sem menn þekkja hver annan persónulega og eru
auk þess oftast náskyldir, tekur við samvinna á forsendum gagnkvæms hags
án beinna kynna; þá er komið í hið útvíkkaða skipulag, „the Great
Society“, eins og Adam Smith kallaði það, þar sem menn eru ekki pers-
ónulegir vinir, heldur viðskiptavinir, og almennar Ieikreglur ráða í stað
persónulegs trúnaðartrausts. Hin ritgerðin er um íslenska velferðarríkið í
samanburði við velferðarríkin í Norður-Evrópu. Stefán bendir á það, að
ríkisútgjöld eru hér lægri en annars staðar á Norðurlöndum og velferðar-
kerfið ekki eins víðtækt. Telur hann ýmsar skýringar til á því, meðal annars
þá að íslenska þjóðin er yngri en grannþjóðirnar, svo að fleiri eru hér sjálf-
bjarga, og þá að vinstri flokkar hafa ekki verið eins áhrifamiklir hér og
annars staðar á Norðurlöndum. Helsti annmarki á lýsingu Stefáns er hins
vegar sá, að hann virðist líta á velferðarríkið eins og sjálfsprottið fyrirbæri,
eðlilegt afsprengi friðsamlegrar þróunar, þótt sú kenning sé að minnsta
kosti ekki fráleit, að það eigi sér aðallega rætur í atkvæðakaupum og yfir-
boðum stjórnmálamanna frá Bismarck að telja til okkar daga.
Gísli Ágúst Gunnlaugsson skrifar greinargóða ritgerð um fólksfjölgun og
byggðaþróun 1880-1990. Fjórar tölur segja þar sitt. Árið 1880 voru Islend-
ingar 72.445, en árið 1990 voru þeir 255.708; árið 1890 bjuggu um 12%
landsmanna í þéttbýli, en um 89% árið 1990. Gísli Ágúst kemst að þeirri
niðurstöðu, að fólksfjölgun og byggðaþróun hafi hérlendis farið eftir svip-
uðum brautum og annars staðar í Evrópu. Þótt frjósemi hafi minnkað, hafi
dregið stórkostlega úr barnadauða og meðalævi lengst, svo að fólki hafi
fjölgað talsvert. Nú sé barnadauði á íslandi raunar einhver hinn lægsti í
heimi. Algengustu dánarorsakir séu nú ekki lengur smitsjúkdómar, eins og
á nítjándu öld, heldur hjarta- og kransæðasjúkdómar og krabbamein, auk
öldrunartengdra sjúkdóma. íslendingum hafi fjölgað hægar á nítjándu öld
en öðrum Norðurlandaþjóðum, en hraðar á hinni tuttugustu. Gísli Ágúst
telur eins og Guðmundur Hálfdanarson, að flutningur úr strjálbýli í þétt-