Andvari - 01.01.1994, Síða 140
138
HANNES HÓLMSTEINN GISSURARSON
ANDVARI
frjálsum samningum við vinnuveitendur. Getur þess vegna verið, að kjara-
barátta sé í eðli sínu barátta launþega innbyrðis fremur en barátta þeirra
saman við vinnuveitendur? Getur verið, að áhrif kjarabaráttu til skamms
tíma séu að flytja fé frá illa skipulögðum launþegahópum til vel skipu-
lagðra, en til langs tíma að minnka aðlögunarhæfni hagkerfisins með því að
festa eða jafnvel frysta myndun launa?
Þá er það umhugsunarefni, sem Friedrich von Hayek segir, að sósíalismi
hafi aldrei öðlast meirihlutafylgi í röðum verkamanna; eini hópurinn, sem
hafi aðhyllst hann að miklu leyti, hafi verið menntamenn. Getur verið, að
þeir Jónas frá Hriflu, Ólafur Friðriksson, Brynjólfur Bjarnason og Einar
Olgeirsson hafi stutt stofnun og starfsemi verkalýðsfélaga, af því að þeir
hafi talið þau henta sér sem valdatæki? í rauninni hefði þurft í þetta rit
grein um hagsmunabaráttu og hagsmunasamtök á íslandi á tuttugustu öld,
ekki óljósar hugleiðingar um stéttarvitund eða helgisögur um stéttarfélög.
Hvað hafa til dæmis þær stéttir, sem tekist hefur að loka greinum sínum,
eins og endurskoðendur, tannlæknar, lyfsalar og gleraugnasalar, hirt mik-
inn einokunargróða á þessum tíma? Á það ekki heima í riti um íslenska
þjóðfélagsþróun? Hvers vegna var ekki rannsakað, að hvaða marki sam-
vinnuhreyfingin og verkalýðshreyfingin hafa notið ríkisvaldsins, - sam-
vinnuhreyfingin með aðgangi að ódýru fjármagni og innflutningsleyfum, á
meðan þau voru gefin út, verkalýðshreyfingin með raunverulegum undan-
þágum frá lögum gegn ofbeldi og ofbeldishótunum og frá ákvæði stjórnar-
skrárinnar um félagafrelsi?
II
Ein athyglisverðasta kenning bókarinnar kemur fram í greinum samkenn-
ara minna í stjórnmálafræði, Gunnars Helga Kristinssonar og Svans Krist-
jánssonar. Hún er í fæstum orðum þessi: Frá öndverðu hafa íslenskir stjórn-
málaflokkar allir verið fyrirgreiðsluflokkar, ef til vill vegna þess að reglu-
veldi, - stjórnsýslustofnanir, sem starfa við fastar reglur, - myndaðist ekki
hér á undan stjórnmálaflokkum. Alþýðubandalagið er (ásamt Kvennalist-
anum nú) eina undantekningin frá þessu, en það er ekki vegna þess, að vilj-
ann hafi vantað, heldur getuna, því að það hefur oftar verið utan stjórna en
aðrir flokkar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í orði kveðnu verið andvígur hin-
um víðtæku ríkisafskiptum, sem eru forsenda fyrirgreiðslunnar, en þegar
flokkurinn hefur haft aðstöðu til fyrirgreiðslu, hefur hann nýtt hana jafnvel
og hinir flokkarnir. Þetta kerfi fyrirgreiðsluflokka komst hins vegar í
kreppu, sem varð sýnileg um og eftir 1968. Ein meginástæðan til þessarar
kreppu er sú, að flokkarnir geta ekki lengur veitt eins mikla fyrirgreiðslu