Andvari - 01.01.1995, Page 25
ANDVARI
ÞORSTEINN Ö. STEPHENSEN
23
unarleysi flestra leikaranna áberandi og segir þau Harald og Önnu
hafa leikið „Stjernekomedie“.13
Fjalla-Eyvindur var sýndur fram eftir júlí við góða aðsókn og í
sjálfsævisögunni kallar Haraldur sýninguna sinn fyrsta stórsigur á ís-
landi.14 Það er því ekki að furða, þó að þeim félögum hafi sollið móð-
ur og þeir talið sig eiga í fullu tré við Leikfélag Reykjavíkur, sem
stóð um þessar mundir höllum fæti, bæði listrænt og fjárhagslega. í
haustbyrjun eru þeir teknir af fullum krafti til við að æfa nýjan leik
og virðist ætlun þeirra hafa verið sú að flytja hann í Iðnó í beinni
samkeppni við L. R. Úr því varð þó ekki, heldur var sú leið farin að
stofna sérstakt félag um leikhúsreksturinn, svokallað ábyrgðar-
mannafélag, sem var reyndar ekki annað en hópur sjö manna undir
forystu Haralds. Varð að samkomulagi, að þessi félagsskapur skyldi
stýra leikstarfinu næstu þrjú ár undir nafni Leikfélagsins. Voru þrír
stjórnarmanna fulltrúar hins gamla L. R., en þrír menn Haralds, sem
réð því þarna lögum og lofum. Raunin varð og sú, að hann stjórnaði
sjálfur flestum sýningum þessi ár eða nánar tiltekið þrettán á móti
sjö sýningum Indriða Waages. Petta voru vafalaust mjög erfiðir tímar
fyrir leikhúsrekstur, heimskreppan í algleymingi, en víst er, að ekki
vann leikhús Reykvíkinga nein stórafrek þau ár sem Haraldur hélt
þar um stjórnartauma. Vorið 1933 var ábyrgðarmannafélagið lagt
niður og L. R. tók að nýju við rekstri leikhússins, fyrstu tvö árin und-
ir forystu hins gamla félaga Haralds, Lárusar Sigurbjörnssonar. Urðu
þá vinslit með Haraldi og L. R. um hríð og hefur það sjálfsagt ekki
bætt úr skák, þegar hann tók að skrifa leikdóma um sýningar fé-
lagsins undir dulnefni í Alþýðublaðið.
Af einhverjum sökum, sem ég kann ekki að skýra, lék Þorsteinn
sama og ekkert með L. R. þann tíma sem þetta ábyrgðarmannafélag
starfaði eða nánar tiltekið aðeins eitt hlutverk, Bertel í Þremur
skálkum eftir Carl Gandrup, haustið 1930. Má svo sem vera, að eitt-
hvað hafi slest upp á vinskapinn með þeim Haraldi; það sem helst
gæti bent til þess, er þátttaka Þorsteins í sýningu Soffíu Guðlaugs-
dóttur á Brúðuheimili Ibsens veturinn 1932, þar sem hann lék
Krogstad. Mun Soffía, sem var ein aðalleikkona Reykjavíkur og gat
verið tilþrifamikil, bæði á sviði og utan þess, hafa talið sig útlæga frá
Leikfélaginu þessi árin, þó að síðar ættu þau Haraldur reyndar eftir
að starfa saman.