Andvari - 01.01.1995, Síða 124
122
JÓN ÞORLÁKSSON
ANDVARI
reyna þetta ef ég fengi stað sem ég gæti fellt mig við. En sá staður var
vandfundinn því það var hvort tveggja að mér var ekki sama hvert ég fór
og svo voru litlar líkur til þess að nokkur kærði sig um að taka mig sem
matvinnung þar sem ég var lítill eftir aldri og væskilslegur, óþroskaður and-
lega og líkamlega og fjarri því að vera líklegur til stórræða.
Fólk, sem ekki hafði séð mig fyrr, horfði á mig rannsakandi augnaráði og
kvað svo upp úr með þann úrskurð að ég mundi verða konungsgersemi fyr-
ir smáan vöxt. Mér var meinilla við þessa dóma, og þeir urðu síður en svo
til þess að vekja hjá mér sjálfstraust. Ég reyndi að forðast það að verða
nokkur sýningargripur, en það varð ekki alltaf umflúið.
Seint á þessum vetri tókst að útvega mér stað sem öllum er til þekktu
bar saman um að væri góður. Ég var því ráðinn sem vikadrengur að Upp-
sölum til Guðmundar Jónatanssonar og Önnu Mikaelsdóttur sem þar
bjuggu þá, roskin hjón. Uppsalir eru nokkru framar í hreppnum en Jódísar-
staðir. Ákveðið var að ég flyttist fram eftir að vorinu um hjúadag. Ég lét
mér þetta vel líka eftir ástæðum.
Þegar leið að vori þóttist ég reyndar finna það að allóþægilegur þrösk-
uldur yrði á vegi mínum sem ég gat þó ekki komist hjá að stíga yfir áður en
ég færi, en það var að kveðja mömmu. Stundum þegar ég var að brjóta
heilann um þetta fannst mér að skást mundi vera að snauta burtu án þess
að kveðja nokkurn en ég sá nú samt að slíkt gat bara alls ekki komið til
mála. Yfir þessa torfæru varð ég að stíga, hvað erfitt sem það reyndist. Og
svo var það bót í máli að enn þá var ekki að þessu komið. Best að hugsa
ekkert um það. Tíminn leið, og að því kom þrátt fyrir allt að þessi ákveðni
burtfarardagur minn rann upp bjartur og fagur, og hafði það sína miklu
þýðingu út af fyrir sig.
Þennan dag átti að vera einhver hreppsfundur að Öngulsstöðum sem er
næsti bær við Jódísarstaði og stutt á milli. Það hafði verið svo um talað að
ég kæmi þangað og ætlaði Guðmundur á Uppsölum að verða þar staddur
með hest handa mér og taka mig með sér heim.
Mamma mín fylgdi mér að Öngulsstöðum, og bárum við farangur minn
allan og veittist það létt. Við hittum Guðmund, og var hann því sem næst
ferðbúinn. Aldrei hafði ég séð hann fyrr.
Og þá kom nú að því sem erfiðast var og ég hafði lengst kviðið fyrir, en
það var að kveðja mömmu.
Mér hefir víst fundist að það ætti ekki við fyrir mann sem ætlaði að fara
að vinna fyrir sér sjálfur að bera sig neitt aumlega. Ég var staðráðinn í því
að láta engan bilbug á mér finna, og það tókst.
Við Guðmundur héldum nú af stað. Hann var viðmótsgóður, og geðjað-
ist mér strax vel að honum. Við komum að Uppsölum síðari hluta dags.