Andvari - 01.01.1995, Side 125
ANDVARI
STÓRA SYSTIR
123
Heimilisfólkið tók mér alúðlega, og geðjaðist mér vel að því öllu. Ekkert af
því hafði ég áður séð. Við Guðmundur gengum til baðstofu; þar var okkur
borinn matur. Að lokinni máltíð gekk ég aftur út á hlað. Það var glaða-
sólskin, logn og blíðviðri. Eg fór nú fyrir alvöru að litast um á þessu nýja
heimili mínu. Allt var mér ókunnugt úti og inni. Ekkert af því sem fyrir
augun bar hafði ég áður séð nema himininn og fjöllin, en nú sá ég þau frá
öðrum stað, og litu þau því nokkuð öðruvísi út. Mér hafði ekki verið sagt
fyrir um neitt starf svo ég ranglaði ýmist út eða inn, og var eitthvert
óvenjulegt eirðarleysi í mér. Á þessu róli mínu rakst ég stundum á fólkið
þar sem það var við einhver hreingerningastörf innanbæjar. Það talaði
glaðlega til mín þegar fundum okkar bar saman; að öðru leyti var ég látinn
afskiptalaus.
Einhvern tíma á þessu rangli mínu læddist það nú reyndar fram í huga
minn að ég væri kominn burt frá mömmu. En þetta var einmitt það sem ég
vildi ekki hugsa um. Alls ekki. Það var ákveðið. Og það átti að vera algjör-
lega hulið fyrir öllum að þessu líkt kæmi nokkurn tíma í huga minn.
Allt heimilisfólkið var fullorðið nema fósturdóttir hjónanna, Guðrún að
nafni - kölluð Gunna, og mun ég hafa það nafn hennar í þessari frásögu -.
Hún var um það bil tveimur eða þremur árum eldri en ég, ef ég man rétt,
en mikið stærri og þroskaðri, andlega og líkamlega. Ekki veitti ég henni
neina sérstaka eftirtekt þar sem hún var að starfi með hinu heimilisfólkinu.
Hefir sennilega ekki fundist hún neitt frábrugðin öðrum stelpum á þessum
aldri. Mig óraði alls ekki fyrir því að þessi unglingur gæti búið yfir þeim
töframætti að geta á svipstundu gjörbreytt sálarástandi mínu, eins og það
var. Þessa var þó ekki langt að bíða.
Þegar leið að kvöldinu var okkur Gunnu sagt að ganga til kinda. Ekki
man ég nú hvað helst við áttum að gjöra, hitt man ég eins og það væri nýaf-
staðið að þegar við vorum komin fá skref frá bænum lagði hún arminn
mjúklega um hálsinn á mér og talaði til mín hlýlegum orðum. Ég get ekki
lýst því til hlítar hver áhrif þetta alóvænta tiltæki hennar hafði á mig. Það
var svo óteljandi margt sem þeyttist um huga minn og varð að hringiðu
sem ég botnaði ekkert í. Það var aðeins eitt sem ég gat gjört mér fyllilega
ljóst. Og það var þetta, að einstæðingsskapur minn var gjörsamlega horfinn
og í hans stað fann ég til einhvers öryggis sem mér var áður alveg óþekkt.
Þetta öryggi fannst mér stafa frá Gunnu þar sem ég gekk fast við hlið
hennar og armur hennar, mjúkur og hlýr, sem hvíldi létt og notalega um
háls mér, fannst mér vera einhver verndarvættur. Ég var eins og í leiðslu.
Fortíðin var alveg hulin gleymskuhjúp. Fram undan og umhverfis mig var
sólskin og fegurð. Og nú var Gunna ekki lengur bara eins og aðrar stelpur.
Miklu fremur dís. Ekki sagði ég nokkurt þakkarorð við hana. Gat það