Andvari - 01.01.1995, Qupperneq 126
124
JÓN ÞORLÁKSSON
ANDVARI
ekki. En ég var henni ynnilega þakklátur og það er ég enn. Þannig endaði
þessi viðburðaríki dagur með sól og sigri á erfiðleikum hans. En sigurinn
var Gunnu að þakka.
Aldrei minntumst við Gunna á þennan atburð með einu orði. Og aldrei
fékk hún að vita hvað algjörlega ómetanlega mikils virði þessi góða og hlý-
lega framkoma hennar var mér einmitt á þessari stundu. En ástæðan til
þess var eingöngu sú að ég leyfði engum aðgang að innstu fylgsnum tilfinn-
inga minna. Ekki einu sinni Gunnu.
Það sem Gunna vann sjálfri sér til handa með þessari framkomu var
traust mitt, virðing og undirgefni.
Mér er óhætt að fullyrða að hún fékk jafnmikið og samskonar vald yfir
mér eins og stóra systir yfir litla bróður. Þetta kom skýrt og ótvírætt í ljós á
öllum samverustundum okkar þar sem við vorum tvö ein að starfi eða í leik
án íhlutunar annarra. Þá réð hún öllu og stjórnaði ein. Þetta var líka eins
og ég vildi hafa það. Ef hún réð þá varð allt eins og það átti að vera. En
þegar ég var einn að starfi og Gunna hvergi nærri urðu mér oft á skyssur og
glappaskot. Þetta fann ég og varð því feginn að hún tæki vandann á sig
enda var hún í mínum augum miklu meiri og fullkomnari en ég.
Það gladdi mig alltaf verulega þegar ég vissi að Gunna átti að ganga til
verks með mér, og bar margt til þess. Fyrst og fremst þessi öryggiskennd
sem ég hefi áður getið um, og hún var líka svo skemmtileg og góð, og fal-
leg. Hún vissi líka allt, kunni ráð við öllu og gat allt. Þannig fannst mér
þetta vera. - Og ég vissi nokkuð hvað ég söng í þá daga. - Hún var alltaf
stóra systir en ég litli bróðir. Hvort hún sjálf hefir gjört sér þetta fyllilega
ljóst veit ég ekki, en þetta var staðreynd. Þetta hygg ég að litlum eða eng-
um breytingum hafi tekið allan þann tíma sem við vorum á sama heimili.
En það voru þrjú ár. Þó ekki samfleytt.
Ekki man ég eftir því að ég reiddist við Gunnu, en það kom fyrir að mér
sárnaði við hana snöggvast. Hún hafði það til að beita mig smá-brögðum
og brellum, hló svo að vitleysu minni og sagði fólkinu frá því hvað sér hefði
reynst auðvelt að leika á mig. Að hún skyldi gjöra þetta fannst mér svíð-
andi sárt. Að hún skyldi smána mig svona og niðurlægja, það var í einu
orði sagt drepandi. Ef þetta hefði verið strákur sem í hlut átti, eða þá bara
einhver stelpa, hefði ég fokreiðst og óðara hugsað til hefnda. En af því það
var Gunna þá kom mér bara ekki hefnd í hug. Ég vissi líka vel, að þetta var
ekki gjört í þeim tilgangi að særa mig, heldur eingöngu af óviðráðanlegum
galsa og gáska. Þetta öldurót lægði því fljótt í huga mínum og þegar lá-
deyðan kom fann ég það að ég var alveg sáttur við Gunnu.
Ef til vill þykir það ekki trúlegt að stundaráhrif, sem barn eða unglingur
verður fyrir, geti varað um tugi ára. Svo mun þó vera að mínu áliti, því svo